Ég á það til að stinga niður penna og láta hugleiðingar mínar í ljós. Oftast eru það hugleiðingar sem tengjast samgöngumálum okkar í eyjum og snerta veskið mitt, enda starfa ég við ferðaþjónustu.
Nýr kafli var skrifaður í samgöngumálum okkar eyjamanna í síðustu viku þegar bæjarstjórn Vestmannaeyja skrifaði undir samning þess efnis að Icelandair hefði áætlunarflug til eyja á næsta ári. Ég vil nota tækifærið og óska eyjamönnum til hamingju með þennan áfanga og þakka bæjarstjórn fyrir vaska framgöngu. En baráttunni er ekki lokið. Lokatakmarkið er að flugverð verði boðlegt svo flugið nái fyrri hæðum og taki… já flugið.
Það eru ekki mörg ár síðan menn veltu fyrir sér næstu skrefum í samgöngumálum eyjamanna. Göng voru í fyrsta sæti, höfn í Landeyjum í öðru og hraðskreiðara skip sem sigldi um Þorlákshöfn í því þriðja, en þá kom skýrslan fræga sem öllu breytti.
Árið 2006 leit skýrsla Gísla Viggóssonar um Landeyjahöfn dagsins ljós. Hún var full bjartsýni og ýtti öllum öðrum hugmyndum um samgöngumál við Vestmannaeyjar til hliðar. Á sama tíma gaf Vegagerðin út þá yfirlýsingu að göng myndu kosta 80 milljarðar og þar með var tónninn sleginn. Lítum á nokkur atriði úr skýslu Gísla:
Miðað við venjulegt ástand munu líða á bilinu 3 til 4 ár þar til efni hefur sest svo að varnargörðunum að sandurinn fer að berast framhjá hafnarmynninu. Eftir það er talið að um 20.000 til 25.000 m3 af efni berist inn um hafnarmynnið á ári hverju miðað við að breidd hafnarmynnis sé 70 m. Áætlaður kostnaður vegna viðhaldsdýpkana er 10–15 millj. kr. á ári.
Við frumhönnun er gert ráð fyrir 1096 ferðum á ári. Öldumælingar á Bakkadufli hafa staðið yfir frá októberlokum 2003, samtals í 26 mánuði. Miðað við fastar ferðir og viðmiðunarmörk ölduhæðar 3,8 m, hefðu 39 ferðir fallið niður á þessu 26 mánaða tímabili. Af þeim ferðum væru 36 að vetrarlagi eða 4,3% ferða og 3 ferðir hefðu fallið niður yfir sumarmánuðina eða 0,2%. Samtals hefðu um 1,6% allra áætlunarferða á tímabilinu fallið niður. Frátafirnar samsvara 7 ferðum á ári eða 3–4 dögum ef miðað er við 2 ferðir á dag. Er sú tíðni frátafa sambærileg frátöfum Herjólfs sem að jafnaði verður að fella niður ferðir tvisvar til þrisvar á ári.
Heildarkostnaður við gerð ferjuhafnar á Bakkafjöru og byggingu nýrrar ferju er áætlaður á bilinu 3,8 – 4,5 milljarðar króna á núverandi verðlagi (2006).
Nú skyldi maður ætla eftir lestur skýrslu eins og þessarar sem ekkert er að marka hefði þessi bjartsýni maður sem hana skrifaði og hefur auðsýnilega kostað þjóðfélagið milljarða og ómælda milljarða í framtíðinni hefði verið kallaður á teppið og knúinn útskýringa. Nei, þannig virkar þetta ekki hjá okkur. Hjá okkur er þetta fólk jafn heilagt og kýr á Indlandi.
Í Færeyjum er verið að leggja neðansjávargöng, en þau kosta á núverandi verðlagi kringum 2 milljarða á kílómeter sem þýðir að göng milli lands og eyja á núverandi verðlagi yrði 36 milljarðar. Enginn hefur verið kallaður á teppið og spurður hvaðan tölurnar eru komnar, ekki síst þegar tekið er með í reikninginn að rannsóknum á berginu var aldrei lokið og enginn látinn sæta ábyrgð, það er íslenska leiðin. Það lýsir stofnuninni kannski best að ráðherra skyldi ráða dýralækni sem forstöðumann stofnunarinnar í fyrra, kannski eðlilegt reyndar þar sem ráðherrann er sjálfur dýralæknir.
Ekkert af því sem lagt var til grundvallar Landeyjahöfn hefur staðist með ómældum kostnaði og sársauka fyrir samfélag eyjanna. Fjöldi dugnaðarforka hefur lagt allt sitt í uppbyggingu í ferðaþjónustu byggt á þessum fölsku forsendum. Ég tel það því vera skýlausa kröfu samfélagsins að þeir sem fóru með ferðina í þessu máli, þjóðfélagið sjálft standi með eyjamönnum í viðleitni þeirra við að endurheimta sín vopn.
Þegar flugið til eyja var í blóma tóku menn eftir því að verð á flugi aðra leiðin milli eyja og Reykjavíkur var nokkurnveginn á pari við flösku af íslensku brennivíni. Lítersflaska kostar í dag 8.590,- krónur. Flugið er ofurskattað, það er ástæða hnignunar flugsins. Krafan á að vera sú, að lendingargjöld flugs til og frá eyjum verði hófleg. Að önnur skattlagning Flugfélagsins verði endurskoðuð í samræmi við hlutdeild eyjaflugsins svo flugverð til eyja verði það lágt, að flugmiðinn verði svipaður og hann var á gullaldarárum flugs milli lands og eyja. Svikin loforð kalla á slíkan gjörning.
Öllum íslendingum blöskrar þær upphæðir sem farið hafa í dýpkun Landeyjahafnar gegnum tíðina. Munum að við erum líka íslendingar, okkur blöskrar líka. Við þurfum ekki að skammast okkur, sökin liggur annars staðar eins og sjá má hér að ofan. Við eigum að verja okkur og hafa hátt, fá almenning á Íslandi með okkur. Við leggjum okkar af mörkum til samfélagsins og vel það, árum saman verið með hæstu skattgreiðslur miðað við höfðatölu á landinu.
Árum saman hefur samfélagið í eyjum misst af ferðamannabylgjunni sem reisti þjóðfélagið upp að nýju eftir hrun, nema yfir blásumarið. Við trúðum á orðin í skýrslunni hans Gísla, sem hafa fölnað hraðar en blóm að hausti. Vonandi bregðast stjórnvöld á Íslandi við af röggsemi í þetta skiptið og rétti okkur þá hjálparhönd sem við eigum skilið. Munum að framundan eru kosningar. Fáum skýr svör hjá þingmönnum kjördæmisins: Ætlar þú að standa með okkur og berjast fyrir þessu framfaramáli eða verður þetta svona eins og venjulega, status quo?
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst