Stjarnan lék á als oddi í fyrri leik dagsins í Pepsi-deild karla. Eftir jafntefli gegn Grindavík í fyrstu umferð vildu þeir vinna í dag.
Fotbolti.net greinir frá.
Fyrsta markið kom strax eftir sex mínútur þegar Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði úr vítaspyrnu. Leikmenn ÍBV voru alls ekki sáttir við vítaspyrnudóminn, en það er dómarinn sem dæmir.
Í kjölfarið bættu Stjörnumenn við tveimur mörkum fyrir hlé; fyrst skoraði Jósef Kristinn Jósefsson eftir langa sókn og síðan bætti Hólmbert Aron við öðru marki sínu með dúndurskoti.
Í upphafi seinni hálfleiks misstu heimamenn Hólmbert Aron af velli, en það kom ekki að sök. Hilmar Árni Halldórsson gerði fjórða mark Stjörnunnar á 70. mínútu áður en Guðjón Baldvinsson bætti við fimmta markinu í uppbótartíma.
Lokatölur í Garðabænum í dag, 5-0 fyrir Stjörnuna. Stjarnan er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina, en ÍBV er með eitt.