Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók í nótt tvo menn sem grunaðir eru um aðild að innbrotum og þjófnaði í gagnaverum í Reykjanesbæ í desember. Ellefu hafa verið handteknir í tengslum við málið, en um er að ræða eitt stærsta þjófnaðarmál sögunnar enda þýfið talið nema rúmum 200 miljónum króna.
Fréttablaðið greindi frá.
Skipulögð glæpastarfsemi
�?jófarnir höfðu á brott með sér um 600 tölvur en ljóst er að töluverðan viðbúnað þarf til að starfrækja þennan tækjabúnað á ný. Lögreglan fylgist því vel með raforkunotkun, en rannsókn málsins hefur lítið miðað áfram. Talið er að um sé að ræða skipulagða glæpastarfsemi. Tveir íslenskir menn sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins en gæsluvarðhaldsúrskurður þeirra rennur út á morgun. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort lögregla hyggist fara fram á áframhaldandi varðhald.
Lögregla óskað eftir aðstoð almennings í málinu og biður alla þá sem hafa orðið varir við eitthvað grunsamlegt að hafa samband. Búnaðurinn gæti verið í notkun hvar sem er á landinu. Sérstaklega er leitað eftir upplýsingum frá fyrirtækjum sem sjá um nethýsingu, rafverktökum og leigusölum húsnæðis eða gáma.