Togararnir Páll Pálsson ÍS og Breki VE, sem smíðaðir voru í Kína og eru nú á heimleið, eru komnir í gegnum sundið við Singapúr, og vel inn á Indlandshafið, en sjórán eru tíð á sundinu. Samkvæmt upplýsingum frá Vaktstöð siglinga gengur heimsiglingin vel og samkvæmt áætlun, en um eða upp úr næstu helgi fara skipin um annað hættusvæði undan ströndum Sómalíu, þar sem sjóræningjar láta til sín taka. Líklegt er að togararnir muni þá slást í hóp annarra skipa og að hópurinn njóti verndar herskipa. Síðan verður siglt um Súesskurðinn.