Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í dag fyrir rekstrarárið 2017. Á listanum eru 857 fyrirtæki eða 2% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Samherji er í efsta sæti listans líkt og á síðastliðnu ári og þar á eftir kemur Marel, Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaál. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flutti ávarp og afhenti Nox Medical sérstök verðlaun fyrir nýsköpun og Eflu verkfræðistofu ehf. verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsábyrgð.
Creditinfo hefur greint rekstur íslenskra fyrirtækja síðustu níu ár og birt lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi. Stærð listans er tiltölulega óbreytt milli ára en fyrirtækjum fækkar um 2% frá fyrra ári. Áhugavert er þó að brottfall fyrirtækja af listanum frá fyrra ári er óvenju hátt, um það bil tvöfalt miðað við venjulegt ár. Engin ein skýring er á þessu brottfalli. Að hluta til má rekja það til hertra skilyrða en það er engu að síður hátt þó leiðrétt sé fyrir því. Þegar tölur úr rekstri fyrirtækja á listanum eru skoðaðar þá sést að hagnaður er að aukast hjá um 48% félaganna en eiginfjárhlutfall að batna hjá 58% þeirra. Sambærilegar tölur fyrir öll fyrirtæki í landinu er að hagnaður eykst hjá 46% en eiginfjárhlutfall batnar hjá 44%. Ef listinn er brotinn niður eftir starfsemi fyrirtækja þá er áberandi fjölgun félaga tengdri byggingastarfsemi á meðan flestir aðrir geirar standa í stað eða gefa eftir.
Í flokki meðalstórra fyrirtækja á listanum var Efnissala G.E. Jóhannssonar hf. efst, þar á eftir kom JTG ehf. og Keahótel voru í þriðja sæti. Í flokki minni fyrirtækja var Inmarsat Solutions ehf. efst á lista og þar á eftir komu Greiðslumiðlun ehf. og Jónatansson & Co. Lögfræðistofa ehf.
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, sagði í sínu erindi í Hörpu í gær að fyrirtækin á lista Framúrskarandi fyrirtækja væru burðarásarnir í íslensku atvinnulífi og fyrirmynd annarra fyrirtækja. Hún talaði um að í ár væri fyrirtækjum að fækka á listanum og að það væri visst merki um að það sé að hægjast á vextinum sem væri í raun eðlilegt eftir langt hagvaxtarskeið. Hún sagði ennfremur að það væri samstarf atvinnulífsins og stjórnmálanna að ná vissu jafnvægi í hagkerfinu. „Það skiptir sköpum að Ísland sé samkeppnishæft í alþjóðlegu samhengi. Við þurfum fyrst og fremst að sýna ábyrgð. Við þurfum að fjárfesta í innviðum þegar vel gengur svo við getum staðið af okkur álag. Við þurfum að stunda skynsamlega áhættustýringu, við þurfum að axla ábyrgð á umhverfinu, samfélaginu og hvert öðru. Við þurfum að vera mannleg. En við þurfum líka að fjárfesta í framförum og vexti. Og hér er allt til alls, við erum ekki nema um 350 þúsund. Við höfum tækifæri til að skara fram úr á svo mörgum sviðum; Menntun, umhverfismálum, nýsköpun, heilbrigði, hamingju og í að hlúa að þeim sem minna mega sín. Við þurfum að hugsa fram í tímann, hafa langtímastefnu og við þurfum öll að vinna saman að settu marki,“ sagði Brynja ennfremur.
Þessi fyrirtæki frá Vestmannaeyjum eru framúrskarandi:
Vinnslustöðin hf. |
Ísfélag Vestmannaeyja hf. |
Ós ehf. |
Huginn ehf. |
Skipalyftan ehf. |
Hafnareyri ehf. |
Miðstöðin Vestmannaeyjum ehf |
Faxi ehf. |
Vélaverkstæðið Þór ehf. |
Kvika ehf,útgerð |
Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja ses |
Bylgja VE 75 ehf |
Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses |
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst