Stjórn Handknattleiksdeild ÍBV sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu vegna þriggja leikja bannsins sem Kári Kristján Kristjánsson var úrskurðaður í, vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í leik ÍBV og Hauka í undanúrslitum Íslandsmótsins síðasta fimmtudag. Kári fékk rautt spjald fyrir brot á Heimi Óla Heimissyni og var í kjölfarið úrskurðaður í þriggja leikja bann.
Atvik kom upp í leik ÍBV og Hauka þann 2. maí sl. Aðdragandinn að því var sá að Kári Kristján Kristjánsson leikmaður ÍBV stöðvaði leikmann Hauka í hraðaupphlaupi. Það leikbrot var ekki alvarlegt en í kjölfar þess ræðst leikmaður Hauka, Heimir Óli Heimisson að Kára, eftir að leiktíminn hafði verið stöðvaður.
Þetta sést vel á myndskeiðum af atvikinu. Í kjölfar þess þá detta báðir leikmennirnir og þegar að þeir lenda í gólfinu þá fer hendi eða olnbogi Kára í andlit eða höfuð Heimis Óla. Heimir Óli lá eftir en Kári Kristján stóð upp. Kári Kristján fékk rautt spjald frá dómurum vegna atviksins. Í skýrslu dómara til aganefndar segja dómarar um atvikið: „Við það kemur annar leikmaður Hauka að honum og ætlar að skapa illindi milli þeirra. Þá tekur leikmaður nr. 46 hjá ÍBV þann leikmann niður og í fallinu rekur hann olnboga í höfuð leikmanns Hauka sem liggur óvígur eftir og kemur ekki meira við sögu í leiknum.“
Fyrsta myndskeiðið af leiknum, en leikurinn var sýndur í beinni útsendingu, virtist vera í nokkru samræmi við þessa lýsingu að því undanskildu að Heimir Óli var ekki að „skapa illindi á milli þeirra“ en hann ræðst að Kára Kristjáni og tekur hann tökum. Þetta er greinilegt og það vekur strax furðu að dómarar skuli ekki refsa fyrir það brot. Þannig má hafa skilning á því að Kári Kristján hafi fengið rautt spjald í leiknum miðað við það sem dómarar töldu sig sjá.
Málið fór fyrir aganefnd HSÍ en í tilkynningu frá aganefnd kom fram að dómarar töldu brotið beint að höfði andstæðingsins af miklu afli og sérstaklega hættulega aðgerð. Brotið félli þannig undir reglu 8.6 a og b. Aganefnd úrskurðaði Kára Kristján þann 3. maí sl. í eins leiks bann og gaf ÍBV færi á að senda inn greinargerð vegna málsins.
ÍBV sendi inn greinargerð. Með greinargerðinni fylgdi myndskeið frá atvikinu frá öðru sjónarhorni. Síðan þá hefur enn eitt myndbandið komið fram frá öðru sjónarhorni en fyrsta myndbandið. Bæði þessi myndbönd sýna það skýrt að það er Heimir Óli sem dregur Kára Kristján niður en ekki öfugt. Þetta er grundvallaratriði í málinu. Mat dómara á því að það hafi verið leikmaður ÍBV sem tekur leikmann Hauka niður er því augljóslega rangt.
Aganefnd HSÍ var með þessi gögn málsins þegar að nefndin úrskurðaði í málinu þann 4. maí. Í úrskurðinum kemur fram að þessi myndbönd frá öðru sjónarhorni breyti ekki mati dómara á atvikinu. Þetta er einfaldlega óskiljanleg niðurstaða hjá aganefnd HSÍ. Myndböndin sýna það svart á hvítu að mat dómara er rangt, hvað það varðar að leikmaður ÍBV hafi tekið leikmann Hauka niður. Hið rétta er að það er leikmaður Hauka sem ræðst að fyrra bragði að leikmanni ÍBV og tekur hann síðan niður. Þá er ljóst af myndböndunum að Kári Kristján hefur lítið ráðrúm til að setja hendurnar fyrir sig á leiðinni niður. Um óhappatilvik er að ræða sem leikmaður Hauka á sök á en ekki leikmaður ÍBV. Þetta sést einfaldlega á þessum myndböndum.
Niðurstaða aganefndar HSÍ er eins og áður sagði óskiljanleg. En hún er meira en það. Niðurstaðan er hlutdræg. Aganefnd HSÍ er að úrskurða leikmann ÍBV í þriggja leikja bann í úrslitakeppni án þess að gögn sýni fram á réttmæti þess. Aganefndin veit að það er ekki hægt að áfrýja þessum úrskurði. Það er engin rökstuðningur eða umfjöllun um það sem sést í myndböndunum. Aganefndin getur ekki rökstutt sína niðurstöðu.
Þessu máli er ekki lokið. Við hvetjum fjölmiðla til að skoða þessi myndbönd og gefa álit sitt á því hvað gerðist. Við hvetjum stjórn HSÍ til að skoða þessi myndbönd. Þetta er réttlætismál. Þetta er spurning um að skaða handknattleiksíþróttina með ákvörðun sem er röng og má telja líklega til að hafa mikil áhrif á úrslit leikja og Íslandsmótið. Það eru liðin á Íslandi sem eiga að berjast við hvort annað um viðurkenningar. Við eigum ekki að þurfa að berjast við hlutdræga Aganefnd HSÍ sem fer ekki eftir réttum gögnum. Það er að gerast núna og hún er að vinna.
F.h. Handknattleiksdeildar ÍBV
Davíð Þór Óskarsson, formaður
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst