Íslenska fánanum sást víða veifað í gær í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. Vestmannaeyjabær var að vanda með dagskrá sem hófst á Hraunbúðum og svo var líf og fjör á Stakkagerðistúni um miðjan dag.
Eins og áður var gengið í lögreglufylgd frá Íþróttamiðstöðinni niður Illugagötu, inn Faxastíg og áfram Vestmannabraut að Stakkagerðistúni. Fánaberar úr Skátafélaginu Faxa leiddu gönguna og félagar úr Lúðrasveit
Vestmannaeyja léku undir. Helga Jóhanna Harðardóttir, formaður fjölskyldu- og tómstundaráðs setti hátíðina á Stakkó í gær og lúðrasveit Vestmannaeyja spilaði nokkur vel valin lög og börn af Víkinni, 5 ára deild sungu einnig nokkur lög. Páll Magnússon, alþingismaður var með hátíðarræðuna í gær á eftir honum kom Fjallkonan Lísa María Friðriksdóttir og flutti hátíðarljóð. Ávarp nýstúdents var í höndum Dagbjartar Lenu Sigurðardóttur og Thelma Lind Þórarinsdóttir söng nokkur lög. Fimleikafélagið Rán sýndi atriði og svo voru hoppukastalar og fjör fyrir börnin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst