Óskar Matthíasson, skipstjóri, útgerðarmaður og margfaldur aflakóngur (1921-1992) réðist í það stórvirki árið 1959, ásamt Sigmari Guðmundssyni stjúpföður sínum, að láta smíða nýjan tæplega 100 tonna stálbát í Austur-Þýskalandi. Þeir höfðu áður gert út trébátinn Leó VE 294. Nýi báturinn fékk nafnið Leó VE 400 og varð mikið aflaskip. Hann varð þrisvar sinnum aflahæsti báturinn á vetrarvertíðum í Eyjum. Nýi Leó var eitt af fjórum systurskipum sem voru smíðuð fyrir Eyjamenn í A-Þýskalandi á þessum tíma. Hin voru Eyjaberg VE 130, Ófeigur II. VE 324 og Halkion VE 205. Auk þess voru ellefu systurskip smíðuð fyrir útgerðarmenn annars staðar á landinu. Nokkur þeirra áttu eftir að bætast síðar í Eyjaflotann eins t.d. Blátindur VE, Sæunn VE og Hamraberg VE, samkvæmt upplýsingum frá Tryggva Sigurðssyni.
Óskar fór til Þýskalands ásamt Þóru Sigurjónsdóttur eiginkonu sinni til að fylgjast með smíði bátsins. Það var ekki einfalt mál, eins og kom fram í stórri grein um þau hjón í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2021. Þau áttu þá sex börn sem koma þurfti fyrir á meðan þau dvöldu ytra. Þóra hafði ekki farið frá Vestmannaeyjum í sjö ár, enda var hún alltaf að eignast börn eins og hún orðaði það. Hjónin sigldu með Gullfossi til Kaupmannahafnar og fóru síðan til Þýskalands með járnbrautalest og ferju.
Smíði bátsins dróst á langinn og varð dvöl þeirra hjóna og áhafnarinnar í Þýskalandi lengri en áformað hafði verið. Langt var liðið á aðventuna 1959 þegar báturinn var loksins tilbúinn og heimferðin hófst. Leó VE 400 kom í fyrsta sinn í heimahöfn þann 20. desember 1959.
Á þessum tíma voru samgöngur og samskiptatækni með allt öðrum hætti en nú. Menn spöruðu almennt langlínusímtöl innanlands vegna kostnaðar og ekki var hringt á milli landa nema í brýnustu neyð. Menn sendu heldur símskeyti ef koma þurfti skilaboðum fljótt á milli. Sendibréf og póstkort voru helsta boðskiptaleiðin á milli fólks í fjarlægð.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, stýrimaður og áhugamaður um öryggi sjómanna, er sonur Matthildar Þórunnar Matthíasdóttur, systur Óskars, og Sveinbjörns Snæbjörnssonar. Matthildur fékk berkla og dvaldist lengi á sjúkrahúsum á bernskuárum Sigmars. Hann ólst því upp að miklu leyti hjá Þórunni Sveinsdóttur, móðurömmu sinni, og Sigmari Guðmundssyni seinni manni hennar sem var með Óskari í útgerðinni. Þóra, kona Óskars, gaf Sigmari Þór gömul bréf sem Óskari bárust á meðan þau dvöldu í Þýskalandi. Þar á meðal er bréf sem Sveinn Gíslason (1937-2011) vélstjóri frá Hvanneyri skrifaði Óskari í nóvember 1959. Það er vel skrifað og góð heimild um hvernig menn miðluðu fréttum og upplýsingum á þessum tíma. Bréfið er greinargóð lýsing á því sem var efst var á baugi í Vestmannaeyjum í nóvember 1959.
Stærstu fréttirnar voru af síldveiðum sem höfðu gengið vel og var síldin m.a. ferjuð vestur á Akranes og til Hafnarfjarðar. Það óvenjulega var að heilmikið af smásíld veiddist í Vestmannaeyjahöfn eins og Sveinn lýsti:
„Hér er nú búið að vera meira geimið við höfnina, sem fylltist af smásíld um daginn. Fimm litlir bátar þeir Guðbjörg, Bára, Heimir, Ingólfur og Sævar voru með loðnunætur og köstuðu rétt við bryggjuna. Svo háfuðu stærri bátarnir upp úr nótunum hjá þeim og drógu þá stundum upp að bryggju með nótina á síðunni fulla af síld. Bundu bara við bryggjuna og háfuðu þar og lágu líka fyrir föstu út á Botninum til að reka ekki undir Löngu eða upp í Botn eða upp í hafnargarðinn,“ skrifar Sveinn.
„Á sunnudaginn þegar ég kom niður á bryggju var engin síld inni í höfn en Guðbjörg var búin að kasta fyrir utan garða og þá kom Júlía til að háfa úr nótinni. Hún tók Guðbjörgu bara á síðuna og dró hana með nótina með síld í inn að bryggju og háfaði úr henni þar.
Baldur og Huginn… eru saman um nót og fylltu þeir Huginn í öðru kastinu, en í fyrra kastinu sprengdu þeir nótina. Daginn eftir fengu þeir 300 tunnur í Baldur og hættu þá og jöfnuðu aflanum í þá báða. Svo fóru þeir með það suður, annað hvort á Akranes eða Hafnarfjörð. Guðbjörg fyllti Júlíu og svo Suðurey og gekk allt slysalaust hjá þeim suður. Ingólfur kastaði hérna norður og inn af Nausthamarsbryggjunni og fékk þar upp gamla skútusíðu,“ skrifar Sveinn. Hann segir að áfram hafi veiðst vel af síldinni en það gerði suðvestan brælu sem hamlaði síldarflutningum um stund. Þegar veðrið gekk niður var haldið áfram að veiða og sigla með síldina til Hafnarfjarðar og á Akranes.
„Heimir fyllti Erling IV. og þegar hann var kominn á leið suður fór hann að leka. Ruddu þeir þá út af dekkinu á honum sem var víst töluvert (100-200 tunnur) og kom þá í ljós að boxalokin voru opin. Hann komst samt alla leið til Hafnarfjarðar. Heimir fyllti líka Sjöstjörnuna og auk þess var töluvert mikið af síld (ég veit ekki hvað mikið) háfað beint upp á bíla og henni keyrt lifandi beint í frystingu. Þá höfðu þeir það svoleiðis að stóru bátarnir drógu þá litlu að bryggju og lögðust þar. Svo háfuðu þeir yfir sig og sturtuðu beint úr háfnum á bílana. Sævar byrjaði seint og gekk hálf illa en fyllti samt Hugrúnu en hún var 29 tíma á leiðinni til Hafnarfjarðar. Sigurfari fyllti sig sjálfur og sigldi með til Hafnarfjarðar.“
Sveinn var í vélstjóranámi þetta haust. Hann skrifaði Óskari að kennarinn ætlaði að flýta skólanum eins og hægt væri enda stefndu nemendurnir á að komast á vertíð. Nokkrir ætluðu að vera fyrstu vélstjórar og aðrir ætluðu að beita. Sjálfur falaðist Sveinn eftir stöðu annars vélstjóra hjá Óskari. Hann hafði áður róið með Óskari á Leó VE 294 eða „Spýtu-Leó” eins og Sveinn kallaði bátinn. Kristján Óskarsson, Matthíassonar, tók viðtal við Svein og þar sagði Sveinn frá því þegar nærri lá að báturinn færi niður vestan við Eyjar í vondu veðri 1958. Sigmar Þór skrifaði frásögn upp úr viðtalinu.
Vel hafði fiskast og báturinn var fullhlaðinn þegar heimstímið hófst. Mikill sjór kom í bátinn og hafðist ekki undan að lensa þótt lensidælur væru keyrðar í botni og handknúin dekkpumpan einnig. Áhöfnin var farin að ausa sjó úr lúkarnum með fötum. Óskar skipstjóri hélt að báturinn væri að sökkva og sendi út neyðarkall. Vélskipið Fanney var á leið til þeirra þegar það uppgötvaðist að boxalok á dekkinu hafði ekki verið skrúfað fast og sjórinn flæddi þar niður í hverri veltu sem báturinn tók. Lokinu var komið fyrir á sínum stað og það tryggilega fest. „Þarna munaði litlu að Leó gamli hefði farið niður,” sagði Sveinn.
Sigmar á fleiri bréf sem send voru til Óskars í Þýskalandi. Þar á meðal eru bréf frá Þórunni Sveinsdóttur, móður Óskars. Þar skín í gegn móðurleg umhyggja fyrir syninum, bátnum og áhöfninni. Þórunn skrifaði Óskari um það hvernig fjölskyldan í Eyjum hafði það í fjarveru þeirra Óskars og Þóru. Svo fylgdu heilræði fyrir heimsiglinguna og hvernig best væri að undirbúa hana. „Ég bið Guð um að blessa ykkur og varðveita og blessa bátinn. Mundu eftir að biðja Guð um að blessa bátinn um leið og þú tekur um stýrið í fyrsta skiptið,” skrifaði Þórunn. Hún hvatti Óskar son sinn m.a. til að hafa nóg vatn um borð.
Þetta er gott dæmi um hvernig sjómannsfjölskyldurnar hafa staðið saman og líf þeirra snúist um útgerðina og aflabrögðin. Að baki sjómönnunum stóðu ástvinir þeirra í landi sem stundum biðu áhyggjufullir eftir því að bátarnir skiluðu sér í land, ekki síst í vetrarbrælum. Ættmóðirin Þórunn Sveinsdóttir varð fyrir þeirri bitru reynslu að missa fyrri manninn sinn, Matthías Gíslason skipstjóra, frá fimm börnum þegar vél báturinn Ari VE fórst með allri áhöfn 24. janúar 1930 við Bjarnarey. Henni tókst að halda heimilinu saman þótt oft væri þröngt í búi og koma börnum sínum til manns.
Grein úr 10. tbl. Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst