Í síðustu viku birtust á vef Eyjafrétta þrjár fréttir sem vöktu athygli mína svo um munaði. Ég get því ekki annað en brugðist við ákalli ritstjóra Eyjafrétta og stungið niður penna.
Fyrsta fréttin snerist um að Eyjapresturinn Ólafur Jóhann Borgþórsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. Gárungarnir voru ekki lengi að setja saman brandara um kosti þess að hafa drottins þjón við stjórnvölin hjá fyrirtækinu. Hvað sem öllu slíku líður og hversu góð áhrif Óli Jói hefur á veður og sjólag, óska ég honum alls hins besta á nýjum vettvangi og hlakka til samstarfsins við hann.
Næsta frétt er skrifuð af fyrrum ritstjóra blaðsins, Ómari Garðarssyni, sem lýsir áhugaleysi þingmanna Suðurkjördæmis á Vestmannaeyjum í kjördæmaviku. Ekki er annað hægt en að taka heilshugar undir með okkar reyndasta blaðamanni sem spyr hreint út: Hvar eru þingmennirnir? Hvers vegna heimsækja þeir okkur ekki til þess að hlusta á íbúa í Vestmannaeyjum?
Hefð er fyrir því að bæjarstjórn fundi með þingmönnum í kjördæmaviku. Á þessum fundum fara bæjarfulltrúar yfir helstu málefni bæjarins og síðan ræða þingmenn og bæjarfulltrúar málin opinskátt og hreinskiptið. En enginn varð fundurinn að þessu sinni.
Í þessari kjördæmaviku vildi ég bregða út af vananum og gera hlutina með öðrum hætti – einfaldlega bera upp eftirfarandi spurningu til þingmannana: „Nú er bæjarstjórn búin að tala um sömu málin undanfarin þrjú ár, flug og samgöngur, rafmagn, vatn og orkumál og heilbrigðisþjónustu og bráðaviðbragð. Hvað hefur þú gert í þessum málum síðan við hittumst síðast?“
Ekki veit ég hversu góð svör ég fengi við þessari spurningu.
Þriðja fréttin er skrifuð af vini mínum Guðna Hjörleifssyni. Það þarf að segjast sem er – sú grein er sú besta af öllum þremur. Guðni spyr einfaldlega: „Hvað er að frétta af fyrirhugaðri skýrslu um jarðgöng?“
Staðan er einfaldlega sú að skýrslan er klár, skýrsluhöfundar eru tilbúnir að kynna niðurstöður hennar fyrir hverjum sem heyra vill en málið er strand.
Aðrir þurfa að svara fyrir um það hvers vegna.
Njáll Ragnarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst