„Ég er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Foreldrar mínir eru Stefán Sigurðsson, fyrrum sjómaður og Guðrún Gísladóttir fyrrum gjaldkeri í Íslandbanka. Ég er fjögurra barna faðir, giftur Kristínu Sjöfn Sigurðardóttur, sjúkraliða. Höfum búið saman í 18 ár og gift í 13 ár þannig að maður er búinn að sigra í lífinu hvað þetta varðar,“ segir Gísli Stefánsson sem skipar fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Starfar hjá sem framkvæmdastjóri Landakirkju og hefur setið í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tvö ár. Líka tónlistarmaður og gítarleikari og leiðtogi Foreign Monkeys sem sigruðu í Músíktilraunum árið 2006.
Með þetta í farteskinu leggur hann á brattann í pólitíkinni sem fjórði maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. „Nú tekur við nýr kafli en reynslan í bæjarstjórn hefur kennt manni að mestu átökin eru ekki endilega á milli flokka í bæjarstjórn heldur slagurinn við ríkið. Það segir, að sjaldan hefur verið jafnmikil þörf fyrir að rödd Eyjamanna heyrist á Alþingi. Á sama tíma og Gauti og Víðir eru góðir og gildir held ég að ég fái meira næði til að sinna málefnum Eyjanna en þeir sem oddvitar sinna framboða. Að mínu viti er skynsamlegast fyrir Vestmannaeyinga að kjósa Sjálfstæðisflokkinn vilji þeir sjá framgang sinna mála á þingi.“
Trú á einstaklingum og einkaframtaki
Gísli segist fara fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn af því að hann hafi trú á einstaklingnum og einkaframtakinu. „Held að það geti leyst mörg vandamál. Ef við horfum á göng milli lands og Eyja, sem ég vona að komi sem fyrst held ég að þar eigum við í lengstu lög að forðast afskipti ríkisins eftir að rannsóknum er lokið. Eigum að fjármagna göng eins og þeir gera í Færeyjum og með veggjöldum eins og við gerðum með Hvalfjarðagöngin. Við erum vön að borga veggjöld og held að þau séu af hinu góð ef rétt er á spilunum haldið.“
Gísli viðurkennir að Sjálfstæðisflokkurinn sé í brekku í komandi kosningum en er þó bjartsýnn. „Hér finnst mér að við séum á harðahlaupum upp þessa brekku. Sé það ekki sem hindrunarhlaup heldur að vegurinn sé beinn og breiður og upp á við. En það þarf að bæta í á lokakaflanum.“
Verðbólga og vextir á niðurleið
Gísli segir margt mæla með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og bendir á jákvæð teikn í efnahagsmálum, verðbólga á niðurleið og vextir að lækka. „Ég sé ekki að flokkar sem núna mælast með meira fylgi en við fari öðruvísi að. Hitt er svo að báknið hefur vaxið úr hófi fram í tíð þessarar ríkisstjórnar. Á okkar vakt. Á meðan losað var um á einum stað var bætt í á öðrum.
Stjórnin var kosin til að koma á stöðugleika á sínum tíma og fékk áframhaldandi umboð í miðjum heimsfaraldri. Grindavík hélt henni saman, allt mál sem voru okkar allra án þess að áherslur og markmið flokkanna næðu fram. Næsta ríkisstjórn þarf að vera öðru hvoru megin við miðjuna þannig að stefnumálin fái að njóta sín í fyrsta skipti í sjö ár. Auðvitað á sú stjórn að vera hægra megin, að mínu mati,“ segir Gísli sem sér ekki fyrir endann á baráttunni við ríkið þó göng verði að veruleika.
„Þau er hin endanlega lausn á samgöngum en þá verðum við að halda óbreyttu þjónustustigi gagnvart ríkinu. Stærsta málið núna er að ná einhverju réttlæti í orkumálum, fjarvarmaveitunni og hitun húsa. Við erum reyndar að fá tvo nýja strengi sem bæta orkuöryggið mjög mikið. Ef við fáum orkuna þarf að virkja, rýmka heimildir stjórnvalda til þess. Þar hefur náðst árangur sem þakka má Guðlaugi Þór orkumálaráðherra.
Við erum með sjóvarmadælustöð sem sparar orku en verðið hækkar og við sitjum uppi með hærri orkureikninga. Þarna verða stjórnvöld að koma að þannig að HS Veitur geti keypt orku á rekstrarhæfu verði. Ekki á verði á markaði því við getum ekki keppt við álver og önnur stórfyrirtæki. Þennan slag verðum við að taka sjálf og til þess þurfum við að eiga mann á þingi.“
Vantar lækna
Stærsta vandmálið í heilbrigðismálum er að ekki tekst að manna allar stöður á Sjúkrahúsinu. „Við áttum góðan fund með starfsfólkinu sem staðfesti þetta. Við og fleiri flokkar ætla að kanna leiðir til að lokka lækna og hjúkrunarfræðinga út á land. Með t.d. ýmiskonar ívilnunum, skattalækkunum, lækkun námslána og húsnæði. Það þarf að klára stofnansamning við ríkið sem er í samkeppni við sjálft sig með misháum launum. Hér erum við í vandræðum með að tryggja grunnþjónustu. Tveir læknar standa vaktir og á móti þeim eru verktakar. Þyrftu að vera miklu fleiri til að dreifa álaginu. Bæta aðstæður til að menn séu ekki að vinna yfir sig og álag dregur í gæðum.“
Hlakka til
Svo er það morgundagurinn, kjördagur. „Ég hef verið mjög slakur undanfarið en er búinn að vera mjög duglegur og farið um allt kjördæmið. Hitt fullt af fólki og hef trú á góðri kosningu flokksins í Suðurkjördæmi. Að ég nái inn þori ég ekki að veðja upp á en á örugglega eftir að sitja fundi á Alþingi á nýju kjörtímabili sem varamaður.
Ég hlakka til þess og tel mig vera búinn að gera eins mikið og ég get og næ að fylla upp í kvótann í úthringingum. Reka fólk á kjörstað og mér er alls staðar vel tekið. Hef heimsótt kaffistofurnar og held að ég sem pólitíkus og manneskja hafi vaxið. Mun alltaf búa að þessu,“ segir Gísli en af hverju í framboð til alþingis?
„Eftir að Bjarni sleit stjórninni fór síminn að hringja, fólk sem erfitt var að segja nei við og fékk það sæti sem ég vildi. Ég hlakka til kosninganna og hef trú á að þetta fari ekki ver en illa. Er sáttur við minn framlag og lít á þetta sem fyrsta skref. Hvað verður er svo annað mál.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst