Þess var minnst í Eldheimum á fimmtudaginn sl. að 52 ár voru frá upphafi Heimaeyjargossins. Athöfnin var helguð Ingibergi Óskarssyni sem á heiðurinn að verkefninu, 1973 – Allir í bátana. Þar er m.a. að finna nöfn meginþorra þeirra sem flúðu Heimaey gosnóttina og með hvaða bát fólkið fór.
Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og bar þar hæst opnun nýrrar síðu þar sem heimildunum sem Ingibergur hefur safnað um þessa stærstu björgun Íslandssögunnar verða aðgengilegar. Frosti Gíslason sagði frá nýju síðunni, stærsta björgun Íslandssögunnar – 1973 Allir í bátana.
„Einstakt björgunarafrek á heimsvísu var þegar íbúar Vestmannaeyja voru fluttir á brott frá Heimaey 23.janúar 1973 Nú hafa verið skráðar upplýsingar með hvaða hætti íbúar flúðu Eyjuna eða alls, 5.049 manns, 2.630 karlar og 2.369 konur auk 50 ófæddra barna sem voru í móðurkviði þann 23.janúar 1973.
Fólkið fór frá Eyjum með 58 bátum og skipum, flugi eða varð lengur í Eyjum þessa nótt. Að auki komu a.m.k. þrír bátar til Eyja um morguninn til að sækja fólk en fóru farþegalausir til baka. Skráð hefur verið hvar sérhver farþegi var búsettur á þeim tíma og með hvaða báti hann fór og hverjir voru í áhöfn þess báts auk þess hverjir fóru með flugi.” segir í inngangi á nýju vefsíðunni.
Halldór B. Halldórsson var með myndavélina í Eldheimum og tók upp dagskránna. Erindi Frosta má sjá hér að neðan. Hér má skoða nýju síðuna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst