Stjórn SASS hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingasjóði Suðurlands. Um er að ræða fyrri úthlutun sjóðsins árið 2025. Umsóknir voru samtals 122, í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna bárust 31 umsóknir og 91 í flokki menningarverkefna.
Að þessu sinni var 42,120,000 kr. úthlutað, 16,300,000 kr. til 11 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 25,8 m.kr. til 53 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 64 verkefna.
Hæstu styrkina í flokki menningarverkefna hlutu að þessu sinni Sumartónleikar Skálholtskirkju fyrir verkefnið 50 ára afmæli Sumartónleika í Skálholti sem hlaut 1.5 m.kr., Sinfóníuhljómsveit Suðurlands fyrir verkefnið Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands 2025 sem hlaut 1 m.kr. og Hlynur Pálmason fyrir verkefnið ÞRIGGJA VETRA sem hlaut 900. þúsund kr.
Hæstu styrkina í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar hlutu að þessu sinni Grænlaut nýsköpun ehf fyrir verkefnið (steam) Blast the Bast, Midbik ehf fyrir verkefnið Markaðssókn Midbiks 2.0 og Valorka ehf fyrir verkefnið Sjávarfallahverfill, fá verkefnin hvert um sig styrk að upphæð 2.5 m.kr., segir í frétt á vefsíðu SASS.
Vestmannaeyjabær fékk styrki í tvö verkefni. Hér að neðan má fræðast frekar um þau.
Vestmannaeyjabær fékk 400.000 kr. vegna verkefnisins “Upphaf Vesturheimsferða – 170 ára afmælisráðstefna”.
Árið 2025 eru 170 ár frá því að fyrstu Vesturheimsfararnir frá Íslandi settust að í Utah. Af því tilefni heldur Safnahús Vestmannaeyja ráðstefnu 6.–8. júní með fræðimönnum frá Íslandi og Bandaríkjunum. Fjallað verður um fyrstu Vesturfarana, áhrif þeirra á Ísland og tengsl við Utah. Ráðstefnan mun efla þekkingu á þessum sögulega atburði og viðhalda menningararfi Vestmannaeyja.
Hitt verkefnið nefnist “ÚR KLASSÍK Í POPP” sem verða stórtónleikar í Eldheimum á Goslokahátíðinni í sumar. Á tónleikunum verður flutt Popp tónlist eftir stórstjörnur á við Billy Joel,Led Zeppelin, Bob Dylan og Bítlana. Öll lögin á tónleikunum eiga það sameiginlegt að vera samin undir áhrifum frá stóru tónskáldum fyrri alda s.s. Bach, Beethoven, Tschaikowsky og fleiri. Uppruni lagana verður líka stuttlega rakin. Allt tónlistarfólkið sem fram kemur er frá Vestmannaeyjum. Styrkurinn í þetta verkefni nemur 350.000 kr.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst