Staða á bátakosti Vestmannaeyjahafnar var til umfjöllunar hjá bæjarráði Vestmannaeyja í vikunni, en fyrir lá erindi frá framkvæmda- og hafnarráði um afstöðu bæjarráðs til þess að skoðað verði með kaup á þjónustubáti á yfirstandandi fjárhagsári.
Erindinu fylgdi minnisblað vegna fjárfestinarinnar. Þar segir m.a. að bátamál Vestmannaeyjahafnar hafi lengi verið í umræðunni, en höfnin átti tvo
báta frá 1961 til 2005 þegar Léttir var tekinn upp. Umsvif hafnarinnar hafa aldrei verið meiri, og stór verkefni framundan.
Starfsmenn hafnarinnar hafa greint þörfina fyrir kaupum á litlum dráttarbát sem myndi geta sinnt eftirfarandi verkefnum:
Ný verkefni
• Aðstoða fraktskip í vondu veðri þegar þörf er á tveimur bátum.
• Aðstoða skip sem eru borðhá, þar sem oft þarf tvo báta.
• Vinnubátur við ýmis störf innan hafnar.
• Þjónusta t.d. í Viðlagafjöru, við lagningu rafstrengja og vatnslagnar.
• Brúa bil ef Lóðsinn verður leigður út í dráttarverkefni.
• Aðstoða skip þegar Lóðsinn er í slipp.
Tilfærsla frá Lóðs yfir á sparneytnari bát
• Sækja og skutla hafsögumanni.
• Dýptarmælingar.
Eftir töluverða leit hefur fundist einn bátur af tegundinni StanTug 1205, smíðaður af Damen árið 2010. Hann hefur 9 tonna dráttargetu, með tvær skrúfur, sem er talið nauðsynlegt til að hægt sé að hafa betri stjórn við erfiðar aðstæður. Báturinn er 13 metra langur og 5,3 metrar á breidd. Framleiðslu á þessari stærð hefur verið hætt sem skýrir skort á framboði. Báturinn er í ákveðnum ,,klassa“, sem gerir hann að góðri söluvöru og mikilvægt er að halda honum við í ,,klassa” til að viðhalda verðmæti.
Einnig kemur fram í samantektinni að uppsett verð á bátnum sé um 135 milljónir. Þá segir að áætlaðar tekjur á Létti (eins og báturinn er kallaður í minnisblaðinu) sé 1.600.000. Rekstarhagræðing á Lóðsinum hljóðar upp á 5.451.169. Rekstarkostnaður við Létti 2.160.918 (það eru tvær millj. í fjáhagsáætlun). Hagræðing 4.890.250 á ári.
Í afgreiðslu bæjarráðs segir: Bæjarráð skilur þörfina fyrir nýjum þjónustubáti og óskar eftir ítarlegri gögnum um ástand bátsins sem verið er að horfa til.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst