„Skipalyftan hefur rekið verslun í langan tíma og í dag erum við með verslun sem þjónar fleiri greinum heldur en sjávarútveginum t.d. byggingariðnaðinum,“ segir Stefán Örn Jónsson, framkvæmdastjóri og einn aðaleigandi Skipalyftunnar. Verslunin er í húsi fyrirtækisins inni á Eiði og er vöruúrval meira en margan grunar. Og alltaf eru reynsluboltarnir, Tómas Hrafn Guðjónsson og Ómar Björn Stefánsson til þjónustu reiðubúnir. „Stefnan hjá okkur er að bjóða upp á sem mest úrval fyrir þá sem eru að byggja, stærri fyrirtæki, verktaka og einstaklinga. Við seljum meðal annars vörur fyrir Byko sem er með allt til alls þegar kemur að nýbyggingum og breytingum á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Byko er þinn félagi í framkvæmdum og það erum við líka. Vitum hvað þarf til þess að breyta, bæta eða fegra heimilið. Nú er vorið framundan og við bjóðum mikið úrval af efni í pallinn.“ Þá er ekki í kot vísað þegar kemur að því að mála. „Við seljum málningu frá Flugger sem stenst allar kröfur um úrval lita og gæði. Íslendingar hafa áralanga reynslu af málningu og málningarvörum, bæði utanhúss og innan frá Flugger. Þeir eru líka með veggfóður og annað sem fólk þarf til að skreyta heimili sín. Sérefni sér okkur að mestu fyrir málningu þegar kemur að því að mála flotann okkar,“ segir Stefán.
Sama verð og á fastalandinu
Þegar kemur að því að taka til hendinni er Skipalyftan með mikið úrval af verkfærum til sölu. „Má nefna hina þekktu vörulínu frá Milwaukee sem er ótrúlega fjölbreytt. Þú færð vönduð Milwaukee verkfæri og aukahluti á frábæru verði hjá okkur. Mikið úrval af öllum gerðum verkfæra og aukahluta. Allt gæðavörur sem koma að góðum notum hvort sem fólk er bæta og laga heima eða í stærri verkefni þar sem stærri tæki koma að góðum notum,“ segir Stefán og bætir við. „Allar þessar vörur eru í sérflokki í gæðum þá er sama hvort við erum að tala um málninguna frá Flugger og Sérefnum , vöruflokkana sem við seljum frá Byko eða verkfærin frá Milwaukee. Og vörurnar eru seldar á sama verði hér og á fasta landinu. Við leggjum okkur öll fram við að veita sem besta þjónustu, verslunin er meðal annars opnuð kl.7.30 og lokar kl.18.00 virka daga vikunnar. Við finnum vel fyrir því að viðskiptavinir okkar kunna að meta þjónustu okkar,“ segir Stefán.
Brugðist við breytingum
Þegar Skipalyftan var stofnuð 14. nóvember 1981 var atvinnulíf í Vestmannaeyjum allt annað og einhæfara en í dag. Allt snerist um sjávarútveg og þjónustu við hann. Fjögur stór frystihús, Hraðfrystistöðin, Fiskiðjan, Ísfélag og Vinnslustöðin og flotinn á bilinu 50 til 60 bátar. Ferðaþjónustan var að stíga sín fyrstu skref og minnkandi umsvif í byggingariðnaði eftir kröftuga uppbyggingu eftir gosið 1973. Þarna voru breytingar sem kölluðu á nýja hugsun og var stofnun Skipalyftunnar hluti af þeim. „Á þessum árum eru skipin að stækka og eitthvað varð að gera til að halda þjónustunni í Vestmannaeyjum. Skipalyftan varð til við samruna þriggja fyrirtækja sem öll sinntu þjónustu við bátaflotann og stóru frystihúsin. Það voru Vélsmiðjurnar Magni og Völundur sem lengi höfðu starfað við að þjónusta sjávarútveginn og Rafmagnsverkstæðið Geisli sem stofnað var 1973,“ segir Stefán sem hefur starfað hjá félaginu frá upphafi. Skipalyftan byggði nýtt hús inni á Eiði sem hefur tekið miklum breytingum síðan. Í dag eru húsin fjögur sem Skipalyftan á og rekur á Eiðinu. Vestmannaeyjabær var að reisa ný upptökumannvirki sem gátu þjónað flota Eyjamanna eins og hann var þá. „Fyrsta skipið sem tekið var upp var skuttogarinn Sindri VE. Það var síðsumars árið 1982. Miklar annir voru fyrstu árin við upptökur og vinnu í kringum flotann. Má þar nefna stækkanir og breytingar á bátum sem voru að öllu leyti unnar hjá okkur,“ segir Stefán en þeir hafa náð að aðlagast breyttum aðstæðum.
Dýrin gleymast ekki
Í dag er það upptökumannvirki sem Hafnarsjóður Vestmannaeyja tók í notkun 1982 orðið of lítið en skipin eru stærri og hefur að sama skapi fækkað. Upptökur eru því ekki eins margar. „Á fyrstu árunum varð til reynsla sem í dag nýtist okkur í þjónustu við útgerðina og eru sjávarútvegsfyrirtækin enn okkar stærstu viðskiptavinir. Skipalyftan er hluti af atvinnusögu Vestmannaeyja og skiptir máli fyrir bæjarfélagið með 40 starfsmenn,“ en flestir voru þeir á bilinu 100 til 110 á árum í kringum 1987 til 1995. „Viðskiptin vaxa með hverju árinu. Hvað verslunina varðar þá erum við í viðskiptum við mörg öflug fyrirtæki bæði innlend og erlend. Við leggjum mikla áherslu á útvega vöru sem ekki er til þegar viðskiptavini okkar vantar hana, helst að hann fái hana daginn eftir. Í verslun okkar erum við líka vel búin skrúfum og boltum af öllum gerðum. Einnig eru við með gott úrval af mat fyrir blessuð dýrin,“ segir Stefán að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst