Mikil umræða hefur verið um menntamál og fyrir skömmu heimsótti Guðmundur Ingi Kristinsson, menntamálaráðherra Vestmannaeyjar og kynnti sér verkefnið Kveikjum neistann sem hleypt var af stokkunum í Grunnskólanum árið 2021. Ræddi hann við fólk sem kemur að verkefninu. Síðdegisútvarpið á Bylgjunni ræddi í gær við Svövu Þórhildi Hjaltalín læsisfræðing, grunnskólakennara og verkefnastjóra Kveikjum neistann við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar.
Aðspurð sagði Svava að markmið verkefnisins væri að bæta árangur og líðan barna. Auka mannauð og lyfta öllum, burtséð frá stétt eða stöðu. „Við erum að koma úr kolómögulegri stöðu, óásættanlegri í raun og veru. Þetta er þróunarverkefni og við byggjum á fremstu vísindum þannig að við erum örugg með það sem við leggjum fyrir,“ sagði Svava.
„Verkefnið hefur gengið rosalega vel og sýnt framúrskarandi árangur. Í Vestmannaeyjum vorum við með 93% læsi,“ segir Svava og vitnar í árangur í fjórða bekk GRV síðasta vor. Í Lindaskóla sem hópverkefni í haust mælist læsið 97%. „Og nemendum líður betur þannig að við erum alveg í skýjunum. Fáum mikið lof fyrir og margir að skoða verkefnið. Stöðugar heimsóknir til Vestmannaeyja veit ég þannig að kannski fer að birta til.“
Þegar Svava var spurð af hverju þetta hefði ekki gengið hraðar sagði hún breytingar ganga oft hægt fyrir sig. „Það fyrsta sem þarf að gera, er að viðurkenna hvað staðan er slæm. Menntamál eru hápólitísk og við erum komin með frábæran mann á Alþingi, Jón Pétur Zimsen sem berst fyrir menntun barna,“ sagði Svava sem sagðist fagna umræðunni en sakna aðgerða.
„Það eru stjórnmálamenn, skólastjórnendur, kennarar, stór hópur og blandaður sem heimsækja Vestmannaeyjar og kynna sér verkefnið. Við höfum líka verið með kynningar í skólum. Ég er búin að vera kennari í 40 ár og vildi óska þess að öll börn á landinu hefði fengið að upplifa Kveikjum neistann. Það er búið að setja niður aksturslag, við erum farin að hægja á okkur. Erum með ástríðutíma sem hafa vakið heimsathygli. Krakkarnir velja hvað þau gera eftir hádegið, í þjálfunar tímum þar sem börnunum er skipt og fá áskorun eftir færni. Prógramið er svo einfalt, barnvænt og gott að fylgja því,“segir Svava og segir mótstöðuna óskiljanlega.
Hún nefnir líka meiri hreyfingu, hlé á milli tíma og minni hraða. Allir fái sinn tíma. „Með meiri hreyfingu er ekki sísts veriðað mæta drengjum sem eru með aðra heilastarfsemi en stúlkur. Þurfa meiri hreyfingu. Eru ekki bara óþægir og þurfa ekki bara ást og umhyggju eins og rannsóknir sýna núna. Þeir þurfa töluvert meiri ást og umhyggju og meirisamveru með fullorðnum til að fá það sama og stúlkur,“ sagði Svava og saknar þess að rannsóknir séu ekki hafðar að leiðarljósi kennslu eins og í heilbrigðismálum. „Skil ekki hvað við erum rög við menntavísindin,“ bætir Svava við og fullyrðir að Neistinn lyfti öllum börnum, jafnt íslenskum sem börnum af erlendum uppruna.
Bættur lesskilningur, aukin færni í stærðfræði og síðast en ekki síst betri líðan barna er uppskera Kveikjum neistans. Árangurinn þakkar Svava, fólkinu á gólfinu, umgjörðinni, samræmdum mælingum og ástríðunni.„Við verðum að fara að snúa vörn í sókn,“ segir Svava sem er sannfærð um að betri árangur nemenda efli kennara til dáða og sennilega kosti þetta minni pening. Kveikjum neistann hefur vakið athygli erlendis – áhugi meðal annars frá Bandaríkjunum,Indlandi og Færeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst