Valtýr Auðbergsson, kokkur á Vestmannaey VE er í viðtali við vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að Valtýr sé fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og segist hann vera hundrað prósent Vestmannaeyingur. „Ég reyndi að búa í Reykjavík í nokkur ár en það var ekkert varið í það svo ég kom aftur heim,” segir hann.
„Ég byrjaði að starfa hjá Bergi – Hugin árið 2008 en hafði nánast ekkert verið á sjó fyrir þann tíma. Ég hafði einungis farið í einn tveggja mánaða saltfisktúr á togaranum Breka árið 1996 og vann sem lyftaramaður þar um borð. Fyrsta árið sem ég starfaði hjá Bergi – Hugin hoppaði ég talsvert á milli skipa félagsins. Ég var ýmist á Vestmannaey, Bergey eða Smáey, en árið 2009 var ég fastráðinn á Vestmannaey og hef verið þar síðan. Fyrst var ég háseti en tók við sem kokkur árið 2020. Ég hef fundið mig alveg sérstaklega vel í starfi kokksins og er í reynd alsæll um borð í Vestmannaey. Mér hefur ávallt liðið vel í starfi hjá Bergi – Hugin og það versnaði ekkert við það að Síldarvinnslan festi kaup á fyrirtækinu. Þegar Síldarvinnslan tók við jókst kvótinn og verkefni skipsins jukust sem er auðvitað af því góða. Það er áberandi að menn vilja gera allt vel hjá útgerðinni og ef við biðjum um eitthvað þá fæst það nánast undantekningarlaust. Í sannleika sagt er gert mjög vel við okkur og það er ekki hægt að kvarta yfir neinu. Áhöfnin er ánægð og á Vestmannaey er nánast sama áhöfn og var þegar ég byrjaði þannig að það sést að menn eru virkilega sáttir.”
Þegar Valtýr er spurður hvort hann sé góður kokkur stendur ekki á svari. „Já, einn sá allra besti held ég. Strákunum líkar maturinn vel og þeir kvarta ekki. Ég er nokkurs konar mamma hér um borð; ég passa að þeir fái góðan og næringarríkan mat og svo tek ég til eftir þá. Það er staðreynd að á öllum heimilum eru mömmurnar mikilvægastar. Maturinn um borð í Vestmannaey er mjög hefðbundinn en hann er líka fjölbreyttur. Stundum er meira að segja boðið upp á skyndibita. Strákarnir vilja hafa þetta fjölbreytt og það á að hlusta á þá. Þegar þeir setja fram óskir verð ég nánast alltaf við þeim. Staðreyndin er sú að enginn er ánægður ef hann fær ekki gott að borða og þess vegna er kokkurinn í lykilhlutverki um borð í hverju einasta skipi,” sagði Valtýr að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst