Gísli Matt, meistarakokkur og hugsjónarmaður og Páll. Báðir ánægðir með kvöldið.
„Ég gekk út af Slippnum í síðasta sinn í gærkvöldi. Aldrei hef ég snætt níu rétta veislumáltíð (myndir fylgja af ígulkerjum, skötuselskinnum og skyrdesert!) með meiri trega; eiginlega með kökk í hálsinum í hverjum bita! Fjórtán sumra sælkeraveislu er lokið. Frumlegasti og að flestu leyti besti veitingastaður á Íslandi skellir formlega í lás í kvöld,“ segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar með meiru á Fésbókarsíðu sinni í dag. Þar var hann mættur með eiginkonuinni Hildi Hilmarsdóttur og fleira góðu fólki.
Páll heldur áfram: „Andsk… hafi það! Ég hika ekkert við að segja að tilkoma þessa veitingastaðar var mikill menningarauki fyrir okkur hér í Eyjum. Og hróður staðarins barst um víða veröld. Einu sinni hitti ég tvo Bandaríkjamenn á förnum vegi hér í Eyjum og þeir spurðu mig hvar þeir gætu séð lunda. Ég sagði þeim það – og spurði á móti hvort það hefði verið helsti tilgangurinn með komunni til Eyja. Svarið var: „Nei. Við komum til Íslands til að borða á Slippnum en fyrst hann er hér í Vestmannaeyjum langar okkur að sjá lunda í leiðinni’’.
Sumarið 2023 héldu forsætisráðherrar Norðurlandanna fund sinn hér í Eyjum í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá goslokum. Sérstakur gestur var Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Það var snæddur kvöldverður á Slippnum og Trudeau varð yfir sig hrifinn af matnum – og að honum loknum spurði hann hvort hann gæti fengið mynd af sér með matreiðslumeistaranum. Gísli Matthías varð góðfúslega við þeirri beiðni Einn af öryggisvörðum Trudeau hvíslaði því að mér að hann hefði fylgt forsætisráðherranum hvert fótmál í meira en fimm ár og þetta væri í fyrsta sinn sem hann hefði beðið um mynd af sér með einhverjum!
Ég er ekki viss um að margir hafi freistast oftar en ég til að borða á Slippnum í þessi 14 ár – og desertarnir orðnir miklu fleiri en ég kæri mig um að muna. Það er því með trega sem ég segi við Gísla Matthías, fjölskylduna og allt starfsfólkið í öll þessi ár – það sama og börnin læra í leikskólanum:
Takk fyrir matinn – hann var góður!“ eru lokaorð Páls og er þá engu logið.
Tveir af níu réttum sem Páll og Hildur gæddu sér á á næst síðasta kvöldi Slippsins.