„Það var troðfullt og allt mjög skemmtilegt, skemmtiatriði á heimsmælikvarða, töframaður sem galdraði fólk upp úr skónum, söngur og skemmtilegt fréttaskot frá Sýn sem sýndi þá yfirburði sem Helliseyingar hafa yfir öll félög bjargveiðimanna í Vestmannaeyjum,“ sagði Óskar Pétur, ljósmyndari sem myndaði af miklu móð á Lundaballinu í Höllinni á laugardagskvöldið.
„Ballið var, eins og við var að búast það glæsilegasta í áratuga sögu Lundaballa í Vestmannaeyjum. Helliseyingar eru ekki bara manna skemmtilegastir þeir eru líka söngmenn miklir. Mátti sjá tár á hvörmum kvenna þegar þeir tóku lagið, hver með sínu nefi. Stúlkur frá Fimleikafélaginu Rán sýndu listir sínar og fengu mikið lof fyrir. Finna verður upp ný lýsingarorð í Íslensku til að lýsa matnum sem Einsi kaldi og hans fólk bar fram. Fjölbreytnin ótrúleg og lundinn að sjálfsögðu í öndvegi,“ sagði Óskar Pétur og hélt áfram.
„Helgi Braga og Sindri Ólafs stýrðu veislunni af miklum glæsibrag og Jói Pé var með stórkostlega myndasýningu að hætti hússins. Marinó Sigursteinsson pípari og Halldór Sveinsson lögreglumaður voru heiðraðir sérstaklega. Jarl Sigurgeirs stýrði fjöldasöng af miklu móð og reglulega var staðið upp og söng hvert borð sinni eyju lof og prís. Létt skot gengu á milli og allt var þetta í hærri hæðum en áður hefur sést og heyrst á Lundaböllum. Suðureyingar sem verða með næsta Lundaball þurfa setja sér hærri viðmið til að eiga möguleika á að slá Helliseyingum við,“ sagði Óskar Pétur.
Á eftir var stiginn dans þar sem hljómsveitin Gosarnir áttu sína stærstu stund á ferlinum. Með þeim var Einar Ágúst og hljómsveitina skipa, Sæþór Vídó, Biggi Nielsen, Gísli Stefáns, Dúni Geirs, Þórir Ólafs og Jarl Sigurgeirs.
Myndir Óskar Pétur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst