Íþróttamaður mánaðarins að þessu sinni er handboltakonan Sandra Erlingsdóttir. Það þarf vart að kynna Söndru fyrir Eyjafólki en hún er leikmaður meistaraflokks ÍBV í handbolta og A-landsliðs Íslands. Sandra er komin aftur í ÍBV og hefur farið frábærlega af stað í Olís deildinni með eftir að hafa leikið erlendis, bæði í Þýskalandi og Danmörku um nokkurt skeið, ásamt því að hafa leikið fyrir Val hér heima. Hún átti frábæran endurkomuleik í íslenska boltann í fyrstu umferð Olís deildarinnar þar sem hún skoraði 13 mörk í 14 skotum. Hún fylgdi þeirra frammistöðu eftir með góðum leik gegn KA/Þór í annarri umferð þar sem hún varð aftur markahæst. Hún var svo einnig valin í æfingahóp A-landsliðsins fyrr í mánuðinum.
Nafn: Sandra Erlingsdóttir.
Aldur: 27 ára.
Fjölskylduhagir? Daníel Þór Ingason og Martin Leó strákurinn okkar.
Hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi: Dagurinn byrjar á því að rölta með Martin í leikskólann þar sem hann var að byrja, svo stekk ég á æfingu, fer í vinnu og vinn þangað til ég sæki Martin. Þá leikum við okkur þangað til amma besta tekur við og ég fer á æfingu. Svo eigum við bara rólegt kvöld, borðum góðan mat og njótum saman þangað til Martin fer að sofa.
Aðal áhugamál? Það er klárlega handbolti og allt sem snýst í kringum það að vera íþróttakona.
Hver er þín helsta fyrirmynd í íþróttum? Stine Oftedal.
Hefurðu verið í öðrum íþróttum en handbolta? Já, já, ég prófaði allskonar og var lengi í fótbolta og fimleikum áður en ég valdi handboltann.
Hvernig hefur gengið að aðlagast lífinu í Vestmannaeyjum aftur eftir að hafa búið erlendis? Það hefur gengið alveg ótrúlega vel og líður okkur heldur betur vel í Eyjum. Við erum enn að bíða eftir að fjórbýlið sem við keyptum verði tilbúið en á meðan erum við í algjöru dekri heima hjá mömmu og pabba sem er svo dýrmætt.
Hver er munurinn á deildinni hér heima og þeim deildum sem þú hefur spilað í erlendis? Það er auðvitað svolítið mikill munur en úti eru leikmenn eldri. Einnig eru leikmenn sterkari líkamlega og meira tempó í leikjum. En á sama tíma er deildin á Íslandi með yngri leikmönnum sem eru efnilegir og gaman að fylgjast með því!
Hvaða þrjá einstaklinga tækir þú með á eyðieyju og af hverju? Ætli það væri ekki Ásta og Birna fyrir góða stemningu og svo værum við með Örnu til að halda öllu gangandi.
Sturluð staðreynd um sjálfan þig? Ég er svo heppin að hafa fengið að spila í útlöndum og græddi þar tvö auka tungumál og tala því bæði þýsku og dönsku.
Hvaða ráð hefur þú til yngri iðkenda? Æfa vel og huga að öllum öðrum hlutum sem skipta máli eins og næringu, svefni, styrktaræfingum o.s.frv og svo bara að muna að hafa gaman
Eitthvað að lokum? Það var ótrúlega gaman að sjá svona marga í stúkunni á fyrsta leiknum okkar og ég vona að ég sjái svona marga áfram!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst