Signý Rós Ólafsdóttir hlaut nýverið verðlaunin Outstanding woman director á kvikmyndahátíðinni Winter Film Awards International Film Festival í New York. Fjörtíu stuttmyndir börðust um hylli dómnefndar í flokknum, aðeins fjórar þeirra voru tilnefndar og það var myndin Hafið ræður sem hin tvítuga Signý Rós leikstýrði sem kom, sá og sigraði. Þetta kemur fram í frétt á vefnum frétta netið.
„Hafið ræður fjallar um Elvu, unga lögreglukonu, sem fer til Vestmannaeyja í afleysingar. Myndin er byggð á sönnum atburðum, mamma mín starfaði í lögreglunni í Vestmannaeyjum árið 1995 og var á vakt þegar 5 ára drengur, Alexander Örn Jónsson, drukknaði á páskadag. Hennar upplifun af þessum hörmulega sorglega atburði er rauði þráðurinn í myndinni. Við mamma höfðum samband við foreldra drengsins áður en við fórum á fullt og fengum þeirra samþykki. Við höfum átt í fallegu sambandi við þau síðan og ég vona að það endist ævina á enda því yndislegra fólk er erfitt að finna. Þann 16. apríl voru komin 25 ár síðan þetta gerðist en þann dag árið 1995 var til að byrja með rólegt að gera hjá lögreglukonunni í Eyjum. Hún skrapp þess vegna í hádegiskaffi til vinkonu sinnar og fékk þar tilkynningu um að ekkert hefði spurst til Alexanders í dálítin tíma. Hún stökk strax af stað og keyrði um eyjuna, fólk fór svo að safnast saman til að leita að barninu en samheldnin í svona litlu samfélagi er og var sterk. Bátar voru svo sendir út til að sigla meðfram eyjunni og stuttu seinna fundust fötin hans Alexanders á klettsbrún Hamarskletts. Björgunarbátur var þá sendur á svæðið og fólk safnaðist saman á klettinum til að fylgjast með. Alexander litli fannst svo í sjónum stuttu síðar. Á þessum tíma var engin áfallahjálp, lífið hélt bara áfram; næsti dagur, næsta vakt og ný mál. Þetta hræðilega slys var ekkert rætt og þegar við unnum myndina reyndum við að fókusa á það.“
Nánar um málið á frettanetid.is
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst