Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri og líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir í samtali við fréttastofu Rúv að sumarið hafi verið gott í Surtsey.
„Það hefur verið gott sumar, bæði hlýtt og úrkomusamt þannig að gróðurinn leit mjög vel út og var gróskumeiri en nokkru sinni fyrr að okkar dómi og mikið af plöntunum blómstrandi og stór svæði í eynni sem voru hreinlega lituð af blómstrandi holurt og fleiri tegundum,“ segir hann og kveður eyjuna hafa verið fallega yfir að líta.“
Gróðurinn er líka að leggja undir sig sífellt meira land, ekki hvað síst í mávavarpinu, þó tegundum hafi ekki fjölgað mjög mikið undanfarin ár. Aldrei áður hafa þó fundist jafnmargar æðplöntutegundir í Surtsey og voru þær 67 talsins að þessu sinni. Þeirra á meðal voru tvær nýjar tegundir, mýrastör og vætudúnurt.
Leiðangursmenn fundu einnig tvær nýjar smádýrategundir, húshumlu og smáfluguna limnellia surturi, sem ber heiti eyjarinnar þrátt fyrir að hafa ekki fundist þar áður.
Kvarnast úr hömrum og rofnað úr tanganum
Ofsaköst vetrarveðra síðastliðins vetur höfðu sett mark sitt á eyna og segir Borgþór ganga stöðugt á Surtsey. „Það hafði farið af hömrum þarna sunnan til á eynni og á norðurtanganum, sem okkur fannst eftirtektarverðast. Það hefur verið mikill sjógangur í vetur og þá hefur rofnað mikið þar,“ segir hann. Greinilegt sé að sjór hafi gengið yfir tangann, hreinsað út og grafið sig niður í sandinn og skilið eftir rásir og skorninga sem leiðangursmenn hafi ekki séð áður.
Frá árinu 2016 hefur rusl verið hreinsað árlega í Surtsey, en það ár voru fleiri hundruð netakúlur, netabelgir og fleira rusl tekið. Borgþór segir vel hafa gengið að halda eyjunni hreinni síðan. Að þessu sinni fundust 33 netakúlur, ásamt ýmsu plast- og netarusli.
Kórónuveirufaraldurinn minnti líka á sig í Surtsey eins og annars staðar. Borgþór segir leiðangursmennina níu hafa haft varan á og nokkrir þeirra hafi gist í tjöldum á meðan veðrið var skaplegt, svo ekki væru allir að kúldrast inni í sama húsinu.
Við hreinsun á rusli fundu leiðangursmenn svo í mávavarpinu bláa einnota hanska, líkt og notaðir hafa verið til að verjast kórónuveirunni.
„Við sáum þarna bláa hanska sem greinilega hafði rekið á land og sem fuglinn hefur líklega gripið og borið upp á eyju. Við fundum að minnsta kosti tvo slíka, en sem betur fer virðist veiran ekkert hafa komist í land,“ segir hann.