Í nóvember fjarlægðu lögreglumenn, hjá Lögreglunni í Vestmannaeyjum, skráningarnúmer af 25 skráningarskyldum ökutækjum, ýmist vegna vanrækslu á að færa ökutækið til skoðunar, trygginga og fleira. Þá voru 7 ökutæki boðuð í skoðun að kröfu lögreglu og hefur lögreglan þá 3 mál til rannsóknar vegna skjalafals.
Samkvæmt 75. grein Umferðarlaga nr. 77/2019, um bann við notkun ökutækis, segir:
„Nú kemur í ljós að skráningarskylt ökutæki veldur hættu fyrir umferðaröryggi, hefur verið skráð á fölskum forsendum eða er eigi fært til skoðunar þegar krafist er, og getur þá lögregla tekið af því skráningarmerki án frekari viðvörunar“.
Lögreglan vill minna eigendur og/eða umráðamenn að færa ökutæki til skoðunar á tilsettum tíma en fyrir þá sem ekki vita þá segir síðasti tölustafur í skráningarnúmeri til um það hvenær ökutækið á að færast til aðalskoðunar. Hægt er að sjá frekar um það á meðfylgjandi hlekk Samgöngustofu.