Nk. laugardag 29. maí verður prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Það er mikilvægt að sjálfstæðismenn og stuðningsmenn flokksins og frambjóðenda fjölmenni í prófkjörið og geri það eins glæsilegt og kostur er. Hópur frambjóðenda sem endurspeglar fjölbreytileika kjördæmisins, ungir og reyndir, konur og karlar er í framboði. Fólk sem er tilbúið að leiða lista Sjálfstæðisflokksins til stórsigurs í næstu Alþingiskosningum 25. september nk.
Eins og í þingmannsstarfinu hef ég lagt mig fram um að tengjast frambjóðendum í prófkjörinu eins og ég hef tengst íbúum í Suðurkjördæmi þau 9 ár sem ég hef setið á þingi. Ég býð mig fram í 2. sætið á listanum. Ég mun áfram standa á mínu og vera óhræddur að segja mína skoðun. Það eru margir mér þakklátir fyrir að hafa verið eini þingmaðurinn sem var á móti þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússland og hafði alvarlegar afleiðingar fyrir útflutning á lambakjöti og fiski til Rússlands. Fyrir að hafa greitt atkvæði á móti Orkupakka III, staðið vaktina í málefnum hælisleitenda og sagt eitt stórt NEI við Miðhálendisþjóðgarði og þora að segja það sem aðrir þora ekki.
Á Alþingi hef ég látið atvinnu og velferðarmál mig mestu varða. Mín pólitíska sýn birtist í grundvallargildum Sjálfstæðisflokksins, frelsi einstaklingsins og stétt með stétt. Með auknu frelsi er það líka mikilvægt hlutverk okkar að verja þá sem minna mega síns, fíkla og sjúka. Aðgengi fyrir alla að heilbrigðisþjónustu, fæðingarþjónustu og sjálfsákvörðunarrétt fjölskyldunnar hvar sem er á landinu til að hafa val um heilsugæsluþjónustu.
Öflugt atvinnulíf og fjölbreytt vel launuð störf eru forsenda fyrir góðri afkomu heimilanna. Lágir skattar og álögur eru því forsenda blómlegs atvinnulífs og aukins kaupmáttar. Fullveldi landsins byggir á yfirráðum yfir auðlindum þess og við stöndum vörð um afkomu bænda og veljum Íslenskt.
Ég óska því eftir stuðningi ykkar í 2 sætið og ég verð áfram á staðnum fyrir fólkið.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst