Tveir togarar Síldarvinnslusamstæðunnar lönduðu á Seyðisfirði í gærkvöldi og í morgun. Í gærkvöldi kom Bergur VE með fullfermi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að aflinn hafi mest verið ýsa, en veitt var á Gerpisflaki og á Gula teppinu. „Segja má að túrinn hafi gengið vel í alla staði,” segir Jón. Bergur hélt á ný til veiða að löndun lokinni, segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar.
Þá segir að Gullver NS hafi landað fullfermi á Seyðisfirði í morgun. Hjálmar Ólafur Bjarnason skipstjóri segir að í túrnum hafi verið gott kropp og smáskot þess á milli. “Við vorum á Gerpisflakinu meirihlutann af túrnum en enduðum síðan á Herðablaðinu. Aflinn var nánast eingöngu ýsa og þorskur,” segir Hjálmar. Gullver heldur til veiða á ný á miðvikudagskvöld.
Vestmannaey VE landaði í Neskaupstað í morgun og var uppistaða aflans ýsa. Vestmannaey mun halda til veiða að löndun lokinni en ráðgert er að bæði Bergur og Vestmannaey landi á ný á fimmtudag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst