Bæjarstjóri fór yfir stöðu samgangna við Vestmannaeyjar á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Bæjarstjórn sendi frá sér sameiginlega bókun um þessi mál:
Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með að annan veturinn í röð skuli Landeyjahöfn vera opin enda skipta samgöngur í Landeyjahöfn íbúa, fyrirtæki og landsmenn alla miklu máli. Ánægjulegt er að sjá hvernig nýtt skip hefur verið að nýtast til siglinga í Landeyjarhöfn og Þorlákshöfn. Eins skiptir máli að búið er að eyða dýpkunartímabilum og er nú að dýpka um leið og færi gefst til dýpkunar. Hins vegar lýsir bæjarstjórn Vestmannaeyja yfir áhyggjum yfir þeim búnaði sem notaður er til dýpkunar í Landeyjarhöfn við núverandi aðstæður. Bæjarstjórn hefur áður lýst yfir áhyggjum af þeim búnaði sem notaður hefur verið til dýpkunar og hefur það raungerst í vetur að búnaðurinn hefur brugðist í þeim verkefnum sem liggja fyrir. Ljóst er að enn þarf að halda áfram að lagfæra Landeyjarhöfn til þess að hún verði sú heilsárshöfn sem lofað hefur verið.
Flugsamgöngur eru líka mikilvægar fyrir Vestmannaeyjar. Nú er haldið úti flugi með sérstöku framlagi frá samgönguráðuneytinu vegna covid. Það framlag gerir það kleift að flogið er tvisvar sinnum í viku. Fyrir notendur flugsins skiptir ferðatíðni miklu máli og verður töluverð breyting þegar ferðatíðnin eykst í vor með tilheyrandi fjölgun farþega.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst