Eftirfarandi kom fyrir mig fyrir nokkrum árum síðan í verslun í Reykjavík. Ég greiddi það sem ég keypti með 5000 króna seðli, en fékk of mikið til baka. Ég horfði á afgreiðslumanninn: Þú gefur mér vitlaust til baka. Hann var eins og spurningarmerki. Ég greiddi með 5000 króna seðli. Fyrirgefðu sagði hann afsakandi, ég hélt að þú hefðir greitt með 10 þúsund króna seðli. Það er ekki á hverjum degi sem fólk sýnir svona heiðarleika. Sjáðu til sagði ég, ég borga fyrir það sem ég kaupi, annars væri ég þjófur.
Vestur á Ísafirði strjúka þeir hjá Kubb mallakúsann sælir, enda fitna þeir eins og púkinn á fjósbitanum. Þeir sjá nefnilega um sorpmál Vestmannaeyinga. Það skiptir þá ekki nokk miklu máli hvernig umhverfi fyrirtækisins í eyjum lítur út, það eru nefnilega nokkur fjöll á milli okkar og þeirra. Þeir þurfa ekki heldur að hafa áhyggjur af illa lyktandi sorpinu sem þeir flytja með Herjólfi tvisvar í viku, hún þynnist út með suðaustan áttinni sem er ríkjandi hér og lyktar líklega eins og ilmvatn þegar hún líður yfir fjörðinn fagra þaðan sem enginn fer suður.
Til að bæta gráu ofan á svart er okkur nú gert að greiða þessu vel ilmandi fyrirtæki 71 þúsund krónur á ári fyrir að fjarlægja ruslið frá heimilum okkar. Ég minnist ekki á sporslur fyrir að koma rusli til þeirra og læt liggja milli hluta hvað fyrirtækin á eyjunni þurfa að greiða.
Nú vill svo til að ég starfa í ferðaþjónustu sem er frekar stopul í eyjum yfir vetrartímann þannig að vegna vanefnda ríkisins þegar það laug Landeyjahöfn upp á okkur verð ég að stunda mína vinnu uppi á landi lungað úr árinu. Þess vegna stara tómar tunnurnar framan í mig þegar ég kem heim. Ég þarf sem sagt ekki að nota hina margumrómuðu þjónstu púkans á fjósbitanum fyrir vestan.
Minnugur atviksins í versluninni í Reykjavík um árið hugsaði ég með mér að auðvitað væri ekki eðlilegt að ég greiddi fyrir vöru sem ég hefði ekki óskað eftir og notaði ekki hafði ég samband vestur og bað um að ruslaílátin yrðu fjarlægt frá heimili mínu og ég myndi láta vita hvort og hvenær ég óskaði eftir þeim. Mér var svarað um hæl að ég ætti að senda erindið til Vestmannaeyjabæjar sem ég gerði. Þar var mér vísað út á gaddinn, ég skyldi borga með góðu eða illu, auðvitað ekki orðað þannig en þannig hljómaði það í mínum eyrum. Eftir situr sú hugsun hvort þeir vestfirsku standi ekki undir þeim orðum sem ég viðhafði um sjálfan mig í upphafi þessarar greinar. Í New York gengu ítalirnir reglulega á milli fyrirtækja og kröfðust peninga í skiptum fyrir vernd. Þeir voru líka í ruslbransanum.
Það sem ég á erfiðast með að skilja er af hverju Vestmannaeyjabær tekur þennan málaflokk ekki að sér og sendir einhvern fingur vestur. Allir sjá sóðaskapinn uppi á hrauni og áhugaleysið á að gera eitthvað. Það eru ekki mörg ár síðan timburfjall reis á reitnum, væntanlega tugir jafnvel hundruðir tonna. Málið var leyst með því að urða timburfjallið í gryfjunni milli eldfells og ruslasvæðisins.
Við sýnum og sönnum að við erum sannir umhverfissinnar og tökum virkan þátt í að ná markmiðum um loftslagsmál…. eða svoleiðis. Timbrið sem grafið var byrjar að rotna og sendir röng skilaboð út í andrúmsloftið.
Svo mörg voru þau orð.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst