Loðnan er á fljúgandi ferð og fyrsti hluti göngunnar var kominn vestur fyrir Þorlákshöfn í gær, miðvikudagsmorgun. Guðmundur VE byrjaði að frysta loðnu á sunnudag og var kominn með 250 tonn af frystri loðnu í gær að sögn Eyþórs Harðarsonar útgerðarstjóra Ísfélagsins. Forsvarsmenn Ísfélags og Vinnslustöðvar bíða eftir að loðnan verði tilbúin til hrognatöku til að hámarka verðmæti afurða en af þeim 90 þúsund tonnum sem sjávarútvegsráðuneytið gaf leyfi fyrir til Íslendinga er Ísfélagið með 18 þúsund tonn og Vinnslustöðin með 9 þúsund tonn.