Það stefnir í hreint magnaða rokktónleika í Höllinni á föstudagskvöldið en þá ætlar Birgir Nielsen, trommuleikari, að stefna saman öllum helstu rokkhundum landsins í eina stóra rokkveislu. Tekin verða bestu rokklög sögunnar, hvorki meira né minna og má heyra lög frá Deep Purple, Led Zeppelin, Guns’n Roses, Uriah Heep, Creedence Clearwater Revival og ZZ top, svo eitthvað sé nefnt. Meðal þeirra söngvara sem munu þenja raddböndin og hugsanlega klæðast spandex buxum eru Andrea Gylfadóttir, Páll Rósinkrans, Birgir Haraldsson úr Gildrunni, Snorri Idol og Eyþór Ingi.