Nýtt lestrarpróf LÆS, sem metur hvort barn telst læst við lok 2. bekkjar grunnskóla hefur litið dagsins ljós. Að vera læs merkir að barn getur lesið aldurssvarandi texta án vandkvæða, fumlaust og af nákvæmni og skilið innihald. Prófið er þróað af þremur læsisfræðingum og
sérfræðingi á sviði náms og færniþróunar. Það kom vel út úr gildi- og áreiðanleikamati og prófun á yfir 500 nemendum víðs vegar um landið bendir til þess að prófið sé marktækt.
„Við í Rannsóknarsetri um menntun og hugarfar við HÍ sem berum ábyrgð á gerð prófsins erum afskaplega spennt að kynna þessa nýjung fyrir kennurum, því markmiðið er að færa þeim einfalt próf í hendur sem mælir bæði lestur og lesskilning,“ segir Hermundur Sigmundsson, prófessor við NTNU og HÍ. Eitt af markmiðum verkefnis okkar Kveikjum neistann er að við lok 2. bekkjar teljist að lágmarki 80% barnanna læs. Það er ekki til próf sem mælir það svo við réðumst í þróun þess.
„Prófið metur stöðu barns í lestri eftir fyrstu tvö árin í skóla og gefur kennurum mikilvægar upplýsingar til að vinna eftir,“ segir Helga Sigrún Þórsdóttir kennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Vestmannaeyja og læsisfræðingur.
Stjórnendur Grunnskóla Vestmannaeyja, Anna Rós Hallgrímsdóttir, Óskar Jósúason og Einar Gunnarsson eru mjög ánægð með árangurinn eftir fyrstu tvö árin í rannsóknar og þróunarverkefninu, Kveikjum neistann og segja markmiðinu í lestri náð. Vestmannaeyjabær, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins styðja við verkefnið.
Til að kennsla skili árangri þarf kennari að vita stöðu barns svo honum sé unnt að byggja ofan á þekkingu sem fyrir er og auka á færnina. Hann þarf að skipuleggja markvissa kennslu og vera með stöðuga eftirfylgni og þá er mikilvægt að hann hafi undir höndum einföld mælitæki.
Prófið var lagt fyrir 498 nemendur úr 20 skólum víðs vegar um landið. Niðurstöður eru órekjanlegar en aðeins var gefinn upp fjöldi stúlkna og drengja sem tóku prófið og hve margir töldust af þeim læsir samkvæmt viðmiðum prófsins. Rannsakendur sem sjá um tölfræðina
hafa engar rekjanlegar upplýsingar hvorki til skóla né barna.
83% barna í Grunnskóla Vestmannaeyja teljast læs samkvæmt nýju mælitæki en 52% barna úr þátttökuskólum víðsvegar um landið
Niðurstöður fyrstu mælinga með nýju prófi gefa til kynna að það eru víða áskoranir. Það höfum við áður séð í öðrum mælingum.
Eitt af undirstöðuatriðum í kennslu er að gefa barni réttar áskoranir, verkefnin mega hvorki vera of þung né of létt. Barn þarf að komast í flæði og upplifa tilfinninguna, ég get!
Markmiðið með nýju prófi er að færa okkur niðurstöður í hendur til að vinna markvisst að því að efla læsi um allt land. Í Vestmannaeyjum hefur tekist vel til með því að byggja brú milli vísinda og aðgerða.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst