Í kjölfar samkomubanns á Íslandi vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar hefur Apótekarinn ákveðið að loka verslun sinni en afgreitt verður í gegnum glugga apóteksins. „Okkur hefur ekki tekist að tryggja tveggja metra fjarlægð milli fólks inni í apótekinu og vegna mikillar umferðar inn og út úr apótekinu neyðumst við til að grípa til þessa ráðs,“ segir í tilkynningu á dyrum apóteksins. „Við bendum öllum á að hringja á undan sér í síma 481-3900 til þess að auðvelda og flýta fyrir afgreiðslunni.“
Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir lyfjafræðingur hjá verslun Apótekarans í Eyjum sagði í samtali við Eyjafréttar þetta gert til að tryggja áframhaldandi opnun apóteksins. „Við grípum til þessa til ráðs til að hindra smit á starfsfólki í lengstu lög. Ef ein okkar smitast, förum við allar í sóttkví og verslunin lokar.“ Sigurbjörg sagðist vonast til að fólk sýni þessu skilning og hvatti til þess að fólk hringdi á undan sér í síma 481-3900. „Þannig getum við afgreitt fólk fljótt og örugglega og forðast biðröð við gluggan.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst