Vestmannaeyjaskipin, Bergur VE og Vestmannaey VE, lönduðu bæði fullfermi í gær. Þetta kemur fram í fétt á vef Síldarvinnslunnar. Bergur landaði í heimahöfn í gærdag en Vestmannaey landaði í Neskaupstað í gærkvöldi. Afli beggja skipanna var mest ýsa og þorskur. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að það hefði verið ágætis reitingur allan túrinn. „Þetta var í reynd alveg fínasti túr. Aflann fengum við á Gerpisflaki og á Gula teppinu. Við vorum á Gerpisflaki á nóttunni en á Gula teppinu á daginn. Gula teppið var alveg dautt á nóttunni en þar fékkst helst ýsa og ýsan þar var stærri og betri en á Gerpisflaki,“ segir Jón.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi reynt fyrir sér víða í túrnum. „Við byrjuðum við Eyjar og drógum okkur austur. Við vorum að leita að ufsa en árangurinn var sáralítill. Þegar austur var komið var veitt á Skrúðsgrunni, Gerpisflaki og í Reyðarfjarðardýpi. Það var engin mokveiði en það mjólkaðist inn hjá okkur jafnt og þétt,“ segir Birgir Þór.
Bæði Bergur og Vestmannaey munu halda til veiða á ný á morgun og er gert ráð fyrir að það verði síðasta veiðiferð skipanna fyrir jól.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst