Nýliðar ÍBV í Pepsi-deild kvenna hafa vakið mikla athygli með því að byrja Íslandsmótið á því að vinna 5-0 sigra á bæði Þór/KA og Aftureldingu í fyrstu tveimur umferðunum. Eyjakonur eru fyrstu nýliðarnir síðan 2001 sem ná að vinna tvo fyrstu leiki sína í efstu deild kvenna, en Grindavíkurkonur unnu þá tvo nauma sigra, á Þór/KA/KS (3-2) og FH (1-0). Grindavíkurliðið fyrir tíu árum vann líka leik sinn í þriðju umferð en það var síðasti sigurleikur liðsins það sumarið.