Um 20 MS sjúklingar fá ekki nýtt lyf eftir að þeim var gert að hætta notkun eldra lyfs vegna aukinnar hættu á heilabólgu. Einn þeirra biðlar til stjórnvalda að leysa málið. Guðrún Kristmannsdóttir segist hafa náð botninum í baráttu sinni við MS sjúkdóminn fyrir fimm árum. Í kjölfarið hafi líf hennar gjörbreyst til hins betra eftir að hún fór að nota lyfið Tysabri. Guðrún er ein þeirra sem hefur þurft að hætta notkun þess vegna aukinnar hættu á alvarlegri heilabólgu. Hún segir að dætur sínar þrjár hafi sagt við sig að hún gæti alveg eins skrifað undir dánarvottorðið ef hún héldi áfram að taka lyfið.