Birgitta Karen Guðjónsdóttir, deildarstjóri Blómavals hefur starfað sem blómaskreytir í 29 ár. Áhugann segir hún hafi kviknað þegar hún var 14 ára gömul, en þá sótti hún um starf á Garðyrkjustöð sem var einnig blóma- og gjafavöruverslun og hét Garðshorn. ,,Þarna byrjaði þetta allt saman” segir Birgitta, þarna byrjaði hún á því að selja sumarblóm, fór svo í afskornu blómin og síðan í þurrskreytingarnar sem voru mjög vinsælar á þeim tíma. Áhuginn varð alltaf meiri og meiri og þróaðist bara áfram með árunum. Birgitta segir það besta við hennar starf séu verkefnin og áskoranirnar sem hún fær, en þær gefi henni helling. ,,Maður er samt auðvitað ekki að gera blómaskreytingar allan daginn, það er svo margt annað sem fylgir þessu starfi.”
Birgitta ætlar að bjóða upp á námskeið í jólakransagerð í Visku dagana 21. og 28. nóvember þar sem hún kennir undirstöðuatriði í kransagerð. Við fengum að spyrja Birgittu nokkrar spurningar varðandi kransana.
Hvers konar kransar eru í persónulegu uppáhaldi hjá þér?
Ég elska allt sem er gróft og náttúrulegt eins og trjádrumba, greinar og strá og svo set ég þann lit sem við á eftir árstíma.
Hvað munu nemendur læra á námskeiðinu ?
Ég mun kenna að vefja krans með greni. Um leið og viðkomandi nær tökum á því er lítið mál að henda sér í að gera kransa allt árið, t.d. páskakrans, sumarkrans, haustkrans og jafnvel hárkrans. Það er alltaf notuð sama aðferðin hvort sem verið sé að nota greni, laufblöð, páskaliljur eða túlípana með laukum. Á námskeiðinu notum við fjórar tegundir af greni og getur hver og einn ákveðið hvort hann vilji nota kransinn sem hurðakrans, aðventukrans eða borðkrans. Fyrir þá sem ætla að nota kransinn sem aðventukrans er sniðugt að ákveða fyrir fram hvernig kerti og kertahöldurnar eiga að vera og jafnvel taka þær með.
Gerir þú kransa árlega ?
Já ég geri kransa árlega og geri kransa allt árið því það eru til svo margar útfærslur af krönsum.
Á myndunum má sjá ýmis verkefni eftir Birgittu. Þeir sem hafa áhuga á að hanna og búa til sinn eigin krans fyrir jólin geta skráð sig á námskeiðið hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst