Búist er við að sjávarútvegsráðherra tilkynni síðar í dag um kvóta á íslensku sumargotssíldina. Hafrannsóknastofnunin mælti fyrir helgi með fjörutíu þúsund tonna kvóta, sem er mun meira en menn bjuggust við í ljósi alvarlegrar sýkingar, sem hrjáir síldarstofninn. Veiðar úr þessum síldarstofni hafa reynst mikil uppgrip og skilað milljarðatekjum í þjóðarbúið undanfarnar vertíðar en megnið hefur veiðst á afmörkuðum svæðum við innanverðan Breiðafjörð, einkum á Grundarfirði og við Stykkishólm.