Á sunnudaginn kemur verður boðið til dagskrár þar sem minnst verður tveggja atorkukvenna úr Eyjum, Kristínar Magnúsdóttur (1859-1938) og Unu Jónsdóttur (1878-1960). Dagskránni lýkur með því að opnuð verður farandsýning Kvenréttindafélags Íslands: Veggir úr sögu kvenna. Dagskráin er haldin í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna á Íslandi.
Dagskráin hefst kl. 13:30 í kirkjugarði Landakirkju þar sem blóm verða lögð á leiði Kristínar og Unu og jafnframt verður nýr steinn afhjúpaður við leiði Unu. Dagskránni verður framhaldið kl. 14:30 í Einarsstofu í Safnahúsi þar sem Páll Halldórsson, varaformaður BHM og langömmubarn Unu flytur erindið, Skáldið og grasakonan. Eyjakonan Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu og langömmubarn Kristínar flytur erindi sem hún kallar, En amma hafði á öldunni gát og aflann úr fjörunni dró. Er þar komin amman úr frábæru ljóði Ása í Bæ, föður Kristínar sem hann kallaði Heima.
Kristín mun svo opna farandsýningu Kvenréttindafélags Íslands. Unnur Arndísardóttir, afkomandi Unu, og Jón Tryggvi Unnarsson flytja tónlist og á eftir er kaffi og meðlæti á borðum.
Nánar má lesa um viðburðinn í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.