Árni Óðinsson er fæddur og uppalinn Eyjamaður á tuttugasta og níunda aldursári. Foreldar Árna eru Hulda Sæland og Óðinn Kristjánsson, í Klöpp. Á hann fjögur systkini sem öll eru búsett í Vestmannaeyjum. Frá tvítugsaldri hefur Árni verið á miklu flakki og í dag starfar hann sem leiðsögumaður. Hann dvelur oft ekki lengur en nokkra mánuði á hverjum stað áður en hann fer og prófar eitthvað nýtt. Fyrirtækið Wild Wander er í eigu Árna og þar vinnur hann sem verktaki fyrir stærri fyrirtæki.
Fann sig í útivistinni
Undanfarin ár hefur Árni lært í Svíþjóð. Áður en hann hóf allt þetta ævintýri hafði hann lært tónlist- og hljóðtækni. Eftir að hafa klárað námið og prófað sig áfram sem lærlingur, fann hann sig ekki sitjandi við tölvu nánast allan daginn. Sóttist frekar í útivist. Tónlistin fylgir honum þó enn í dag og gengur hann undir listamannanafninu UNDRA. Hann stundaði nám á ýmsum stöðum í Svíþjóð þar sem nám er frítt. Það nýtti hann sér, sérstaklega eftir að hann lærði sænsku. Hann fer reglulega á námskeið og kúrsa bæði hér heima og úti. „Ég vil ávallt reyna að bæta við mig frekari reynslu og réttindum,“ sagði Árni.
Árni er mikið náttúrubarn og vill vera úti í náttúrunni, þá helst í skandinavísku umhverfi „Mér líður best á fjöllum og í skógi. Því lengra frá byggð því betra, bæði einn og með öðrum. Sem óbyggðaleiðsögumaður þarf maður að geta bjargað sér í alls konar aðstæðum og umhverfi, í hvaða veðri og á hvaða árstíma sem er.“
Árni ákvað að stofna fyrirtækið Wild Wander þegar hann fann ástríðuna fyrir starfinu og hann skortir sjaldan verkefni. „Ég ákvað að þetta yrði mín aðalvinna og þá skiptir máli að huga að réttindum sínum og að tryggja sig vel, bæði heilsu- og fjárhagslega. Þegar maður stofnar fyrirtæki þá býr maður til ímynd sem reynist stundum erfitt sem einstaklingur. Ég vil geta boðið upp á persónulega þjónustu á eigin forsendum og stjórna mínum eigin ævintýrum til að tryggja að ég fái aldrei leið á því sem ég er að gera.“
Fjölbreytt verkefni
Til þessa hefur Árni að mestu unnið í Svíþjóð en sækir á heimaslóðir á sumrin. Segir hann vetrarævintýrin í Svíþjóð skemmtileg, sérstaklega skíða og snjósleða menningin. Hann hefur einnig unnið fáeina mánuði í Skotlandi, og fengið tækifæri í Noregi og Ameríku. „Það er alltaf freistandi að reyna eitthvað nýtt en maður verður líka að þekkja sín mörk, í vinnu og ferðalögum.“
Í sumar stefnir hann á að vinna á Íslandi að mestu leyti og í samvinnu við önnur fyrirtæki. Næstu mánuði verður lögð áhersla á ferðir þar sem gengið er í nokkra daga, fimm til sex daga, og nefnir Árni Laugaveginn, Fimmvörðuháls, Kjalveg, Kerlingarfjöll og Hornstrandir. Fjöldinn í ferðum er misjafn og fer hann stundum í einkaferðir, með pörum, fjölskyldum eða nokkrum tugum manna. Síðasta sumar fór hann nokkrum sinnum til Eyja með hópa, sagði þeim frá því helsta og sýndi þeim æskuslóðirnar. Hann segir ýmis verkefni koma upp og er hann opinn fyrir öllu. „Það er allavega enginn staður sem mér líður betur á Íslandi en í Þórsmörk.“
Á uppáhalds íslenska staðnum sínum, Þórsmörk.
Í ágúst skreppur hann í hálfan mánuð á hálendið í Svíþjóð og vinnur fyrir útivistarmerkið Fjällräven sem stendur fyrir mikilli göngu sem fólk um allan heim sækist í. Það er 110 kílómetra ganga í stórbrotinni náttúru, ekkert símasamband eða akvegir.
Nýbúinn með hlutverkið sitt í Fjällräven Classic árið 2022, að ganga 112km og fylgjast með þátttakendum.
Erum sterkari en við trúm
Árni segir það forréttindi að fá að vinna úti allan daginn og hann er sífellt að koma sjálfum sér á óvart. Rok, rigningu og skafrenning segir hann ekki mikið mál með réttum búnaði og hann stofni hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu. „Það er líka ólýsanleg tilfinning að sjá svipinn á fólkinu þegar þau ná markmiðum sínum og sjá og upplifa sjá eitthvert undur í fyrsta sinn. Þetta hefur landið okkar upp á að bjóða og oft vakna upp miklar tilfinningar eða jafnvel einhvers konar innri friður hjá fólkinu.“
Vinnan krefst mikillar skipulagningar og fátt sem má gleymast heima „Ef dagurinn er krefjandi er það oftast andlegt. Maður lærir að lesa fólk frekar fljótt. Ég þekki mín mörk frekar vel en það getur verið erfitt þegar gestir örmagnast og það gengur illa að halda þeim gangandi. Veðrið hefur þar oft mikil áhrif, þá sérstaklega á tilfinningar þeirra og jafnvel hjá manni sjálfum. Þetta kemur sem betur fer örsjaldan fyrir og ef eitthvað er þá koma gestir sér sjálfum á óvart í lok dags, við erum nefnilega sterkari en við trúum,“ segir Árni.
Eldsvoði í snjóhúsi
Ævintýrin sem Árni hefur lent í eru sum furðuleg. Í einni ferð á fjöllum hafði hópur uppi búið til „Igloo“ eða snjóskýli. Olíubrúsi í eldhúsi sprakk inn í einu skýlinu. Sem betur fer var enginn inn í skýlinu og Árni náði að bjarga svefnpokum hópsins áður en þeir fuðruðu upp. „Þar sá maður hvernig kúlulaga snjóhúsið lýstist upp eins og gul ljósapera. Allt fór sem betur fer vel og án skemmda. Þetta er eina atvikið þar sem ég hef heyrt um eldsvoða inn í snjóhúsi,“ sagði Árni. Daginn eftir hélt hópurinn áfram á gönguskíðum og ný snjóhús reist sem hópurinn bjó í næstu fimm daga.
Eitt sinni var Árni líka plataður í þriggja sólarhringa sjálfsbjörgunarþjálfun í Svíþjóð. Með bundið fyrir augun var honum keyrt og sleppt úti í skógi, langt frá öllu og að hausti til. Hópurinn fékk engan mat, ekki tjald né svefnbúnað. Það eina sem þau fengu var lítill pottur, öxi, fötin á bakinu, eldstál og smá snara. „Allur dagurinn fór í það að byggja skjól úr því sem hendi var næst, leita að vatnsbóli og safna saman eldivið fyrir langar nætur. Þegar við rifjuðum þetta upp seinna áttuðum við okkur á því að þetta fór misvel í fólk. Vorum samt sem áður öll ánægð með árangurinn.“
Igloo snjóhúsin sem voru byggð og búið var í.
Draumur að tengja saman nágrannalöndin
Draumur Árna í framtíðinni er að tengja nágrannalöndin betur saman, bjóða Íslendingum að ferðast um óbyggðir Norðurlanda undir hans umsjá. Gefa þeim kost á að kynnast alvöru útivist eins og þau hafa oft séð í sjónvarpinu. Segir hann þessa möguleika frekar takmarkaða hér heima. „Að kenna þeim hvernig maður lifir og bjargar sér fjarri öllu. Byggja skýli, kveikja eld að hætti frumbyggja, enginn sími, engin tæki og ekkert klósett. Bara náttúra, reynsla, félagsskapur og núvitund. Þessi hugmynd kom eftir að nokkrir sem fylgja mér á samfélagsmiðlum sýndu þessu áhuga og vilja prófa þetta sjálf. Ég stefni að láta verða af því einn daginn.“
Árni planar ekki langt fram í tímann og segist varla hafa undan öllu sem hann vill gera. „Ég er ekki einu sinni byrjaður að skipuleggja veturinn. Draumarnir, heimurinn og tækifærin eru stór. Annars er það nú bara fínt að kanna hvaða aðra möguleika landið okkar og önnur lönd bjóða upp á og hvað vill ég gera. Ég er ungur bæði andlega og í bransanum og á mikið eftir ólært. Eitt veit ég þó, á meðan ég er úti og frjáls, þá líður mér best“, segir Árni að lokum.
Greinina má einnig lesa í 17. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst