„Sumarið byrjaði svo sem brösuglega en svo dró frá sólu og var sumarið bara mjög gott,“ segir Einar Björn Árnason, matreiðslumeistari sem rekur veitingastaðinn Einsa Kalda í Vestmannaeyjum, öfluga veisluþjónustu og sér um skólamatinn í grunnskólanum. En nú er önnur vertíð framundan. Þegar jólin nálgast og aðventan gengur í garð lætur Einar Björn og hans fólk hendur standa fram úr ermum. Framundan eru jólahlaðborð, jólakvöldin á Einsa kalda og smörrebrauðið vinsæla.
Þetta er einn af mínum uppáhaldstímum í eldamennskunni. Þarna förum við í allt annan gír og fáumst við allt annað en við erum að fást við allt árið. Annað hráefni og aðrar áherslur sem gerir starfið okkar enn fjölbreytilegra. Frábærlega skemmtilegur tími fyrir okkur og viðskiptavinina sem kunna sem betur fer að meta það sem við bjóðum upp á. Metnaðurinn er líka mikill hjá okkur og er það styrkur Einsa Kalda,“ segir Einar Björn.
Öflug í jólatörninni
„Við höfum verið gríðarlega öflug yfir jólatörnina. Á veitingastaðnum erum við með jólaplattana okkar vinsælu og legg ég áherslu á að það sé notaleg og kósý stemning og að gestir okkar fái góða þjónustu og eigi góða kvöldstund með sínu besta fólki, sannkölluð jólastemning,“
Jólahlaðborð Einsa kalda og Hallarinnar hefur fest sig í sessi sem ein myndarlegasta hátíð vetrarins í Vestmannaeyjum. Þau verða 8. og 9. desember og ekki slakað á í ár. Frábært jólahlaðborð að hætti Einsa kalda og tónlistarveisla þar sem Ragga Gísla, Einar Ágúst, Sæþór Vídó, Una og Sara og Tóti skemmta fólki. „Þarna verður mikið stuð og við erum þakklát fyrir hvað mikið er búið að bóka. Þar er ég í samstarfi með þeim Daníel og Svani í Höllinni og erum við mjög spenntir fyrir þeirri helgi.
Við sendum líka veislur út í bæ ef óskað er eftir, og það er fullt af fyrirtækjum og vinahópum sem vilja vera með sínu fólki í eigin húsakynnum. Fá þau minni útgáfu af jólahlaðborðinu. Svo vill ég minna á að vegna mikillar eftirspurnar ætlum við að bjóða upp á Heima með Einsa, 16. desember. Sama kvöld er Björgvin Halldórsson með jólatónleikana sína sem verða sýndir í sjónvarpinu. Þetta hefur mælst vel fyrir og gaman að koma til móts við óskir fólks með þessum hætti. Þá getur fólk sótt til okkar jólamatinn og farið með heim og notið saman.“
Skemmtilegur tími
Jólakvöldin á Einsa Kalda verða alla fimmtudaga og helgar frá 24. nóvember til 16. desember. Þann 10. desember verður sérstakt fjölskyldukvöld og jólasveinninn mætir á svæðið. „Það er alltaf mikil tilhlökkun að byrja með smörrebrauðið okkar sem er vinsælla með hverju árinu. Það byrjar 8. desember og verður í boði alla föstudaga og laugardaga fram að jólum og dagana 22. til 23. desember. Þetta er skemmtilegur tími fyrir okkur en þetta varð ekki til á einni nóttu. Við erum búin að byggja þetta upp í mörg ár sem er að skila sér,“ sagði Einar Björn sem horfir björtum augum til næstu vikna. „Eyjafólk vill njóta aðventunnar, finnst hún skemmtilegur tími og við viljum taka þátt í því. Þetta er smávertíð og eftir hana förum við glaðari inn í veturinn.“
„Svo má kannski nefna það að við bjóðum hópum upp á aðrar dagsetningar ef að ekki allir komast út um helgar erum þá alltaf til í að taka á móti hópum ef óskað er eftir því. Við ætlum svo að vera með opið milli jóla og nýárs á veitingastaðnum. Það er nýjung hjá okkur og ætlum við að sjá hvort að það sé áhugi fyrir því í framtíðinni. Okkar takmark er að þjónusta Vestmannaeyinga og gesti eins vel og við getum sagði Einar Björn hress og kátur og vildi í lokin fá að þakka fyrir allan velviljann í garð fyrirtækisins og óskar öllum gleðilegrar aðventu og góðra jóla.
Myndir: Einar Björn og Gunnar, eitt öflugasta teymi í veitingabransanum.
Þær eru margar veislurnar sem Einar Björn og hans fólk hefur komið að.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst