Tímaritið Time Out birti í gær val sitt á tuttugu og einum áfangastað í Evrópu sem almennt eru taldir vanmetnir og ferðamenn ættu að íhuga að heimsækja á næsta ári.
„Á sama tíma og margir staðir í álfunni glíma við ofgnótt ferðamanna, bíða þessir vanræktu áfangastaðir eftir að vera uppgötvaðir,” segir m.a. í umfjölluninni. Eitt bæjarfélag frá Íslandi er á listanum, nánar til tekið í fimmta sæti og um það segir:
„Vestmannaeyjar eru sannarlega eitt best geymda leyndarmál Íslands, og fegurðin þar er engu síðri en á meginlandinu – en eyjarnar bjóða líka upp á eitthvað einstakt. Fílakletturinn er náttúruundur sem er næstum óraunverulegt að sjá í eigin persónu, og hraðbátatúrar um hellana eru upplifun sem er bæði spennandi og ógleymanleg. Eldfell og landslagið í kring líkjast nánast öðrum heimi, og Eldheimar safnið dýpkar þekkinguna á eldgosasögunni og færir manni í hug eldgosið sem mótaði eyjarnar.
Og svo er það maturinn. Slippurinn er nauðsynlegt stopp fyrir alla sem hafa áhuga á fyrsta flokks matargerð með sjálfbærni og staðbundinni nýtingu hráefna að leiðarljósi. Sköpunargáfan og notkunin á hráefni af eyjunni gerir upplifunina einstaka.
Að lokum má ekki gleyma lundunum á sumrin! Lundapysju-björgunin er yndisleg upplifun, og það er magnað að taka þátt í þessari einstöku náttúruverndarstarfsemi með heimamönnum. Þetta gerir Vestmannaeyjar að einstökum áfangastað þar sem ævintýri, náttúra, saga og samfélag sameinast.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst