Elliði Vignisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, birti fyrir skömmu pistil á facebook síðu sinni. Þar leggur hann til að gamli Herjólfur verði seldur og fjármagnið nýtt til að kaupa nýja ferju sem siglt getur á móti Herjólfi IV.
Í pistli sínum segir Elliði að á þeim tveimur áratugum sem hann hefur verið í eldlínu stjórnmála sé slagurinn um núverandi Herjólf sá lengsti:
„Ég hef verið í stjórnmálum í rúmlega 20 ár. Lengsti og harðasti slagurinn var um þann Herjólf sem nú siglir milli lands og Eyja. Skipið sem bætt hefur nýtingu hafnarinnar um 45% seinustu 2 ár.“
Elliði þakkar meðal annars árangurinn samstöðu þáverandi bæjarfulltrúa í Eyjum, bæði meiri og minnihluta, sem og þeim einstaklingum sem fóru fyrir smíðinni. Nefnir Elliði þar sérstaklega þá Sigurð Áss Grétarsson og Andrés Þorstein Sigurðsson. Hann segir það hins vegar of langt mál að nefna þá sem lengst gengu í bölbænum og þá fjölmörgu þingmenn og embættismenn „sem ítrekað reyndu að nota sundurlyndið í Eyjum til að flytja fjármagnið í önnur verkefni.“
Þá segir Elliði að hann telji að flestum sé nú ljóst að ákvörðunin um smíði á nýju skipi hafi verið hin eina rétta. „Hefði sá slagur tapast væru Eyjamenn og gestir þeirra enn að sigla 2 ferðir á dag í Þorlákshöfn. Ferðaþjónustan hefði ekki vaxið og íbúum hefði fækkað enn meira.“
Að lokum minnir Elliði á að skipið sé ekki, og hafi ekki verið, ætlað sem hin eina endanlega lausn. „Áfram þarf að þróa höfnina með höfuðáherslu á dýpið og meira skjól fyrir skipið í aðkomu. Þar að auki er full ástæða til að selja strax gamla Herjólf og kaupa fyrir fjármagnið aðra ferju sem einnig þjónustar á þessari siglingaleið en getur jafnframt leyst af í Breiðafirðinum, til Grímseyjar og víðar.“
Færslan var skrifuð í kjölfarið af umfjöllun um bætta nýtingu Landeyjahafnar með nýjum Herjólfi, á Vísi.is.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst