Endurnýjun og endurskoðun á samningi um rekstur Herjólfs var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í vikunni sem leið. Forseti bæjarstjórnar vísaði í tölvupóst sem hann sendi bæjarfulltrúum í byrjun febrúar með uppkasti að bréfi til innviðaráðherra þar sem farið var fram á endurnýjun og endurskoðun á samningi um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Að fengnu samþykki allra bæjarfulltrúa sendi forseti bréfið til innviðaráðherra. Í framhaldi af því, eða 8. febrúar s.l., fékk bæjarstjóri póst frá Ólafi Kr. Hjörleifssyni, skrifstofustjóra í ráðuneytinu, þar sem óskað var eftir samantekt á reynslu okkar af gildandi samningi – og upplýsingum um hverjar yrðu helstu áherslur okkar við endurnýjun samnings, ef til kæmi. Nú er unnið að slíkri samantekt.
Bæjarstjórn felur með sameiginlegri bókun bæjarráði að annast skipulag og framkvæmd frekari viðræðna við samgönguyfirvöld um endurnýjun og endurskoðun á samningi um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og skipa í því skyni sérstaka viðræðunefnd ef svo ber undir. Engar bindandi ákvarðanir verða þó teknar um þetta mál nema með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst