ÍBV heldur enn í vonina um Íslandsmeistaratitil eftir að næst síðustu umferð Íslandsmótsins lauk nú undir kvöld. Eyjamenn lögðu Stjörnuna að velli á Hásteinsvellinum 2:1 í spennandi leik en Eyjamönnum gekk illa að skora þriðja markið og á meðan náðu gestirnir úr Garðabænum að ógna marki ÍBV nokkrum sinnum. En í heildina er sigurinn þó verðskuldaður og fyrir síðustu umferðina munar aðeins stigi á ÍBV og Breiðabliki, sem er sem fyrr á toppnum og aðeins stigi á eftir ÍBV eru núverandi Íslandsmeistarar í FH. Það stefnir því í háspennu lífshættu í lokaumferðinni.