Stephen J. Hurling doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands flytur erindi um vistfræði nætursjófugla í Vestmannaeyjum á Hrafnaþingi 26. apríl 2023 kl. 15:15. Erindið nefnist „Novel methodologies in tracking and population; uncovering the mysteries of Iceland’s nocturnal seabirds“ og verður flutt á ensku.
Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.
Á heimsvísu er þriðjungur allra sjófuglategunda í útrýmingarhættu, þar á meðal eru svölur taldar í mestri hættu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þrjár tegundir nætursjófugla sem verpa hér á landi: sjósvölu (Hydrobates leucorhous), stormsvölu (Hydrobates pelagicus) og skrofu (Puffinus puffinus). Á íslenskum válista eru tegundirnar þrjár allar flokkaðar í nokkurri hættu en sjósvala er auk þess á heimsválista vegna þess að stofninn hefur dregist saman um ≥30% á síðustu þremur kynslóðum. Hingað til hefur ekki verið mikið vitað um stofnstærð, fæðu og útbreiðslu tegundanna þriggja hér á Íslandi og verður í fyrirlestrinum sagt frá doktorsvinnu sem hefur verið unnin til að takast á við þau mál.
Til að staðfesta verndarstöðu tegunda þurfa að liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um stofnstærð þeirra. Hins vegar eru sjófuglar sem einungis eru á ferðinni að næturlagi á varpstöðvunum og verpa auk þess í holur sérstaklega erfiðir í mælingum og meðal þeirra fuglategunda sem illa er fylgst með í heiminum. Á Íslandi er stofnmat sem notað er við ákvarðanatöku um friðun allra þriggja tegundanna ófullnægjandi og þarfnast brýnnar uppfærslu. Nú er unnið að því að gera fyrsta stofnmatið síðan 1991-1992 og spannar það árin 2021-2023. Kynnt verður ný aðferðafræði sem notuð er við rannsóknina.
Íslenskir stofnar sjósvölu, stormsvölu og skrofu verpa allir í Vestmannaeyjum. Ferðalög þeirra og fæðuvistfræði eru þó enn lítt þekkt. Til að bregðast við þessu er notuð aðferð sem sameinar nýja GPS- og GLS-rakningartækni (til að fylgjast með ferðum) og stöðuga samsætugreiningu, DNA-strikamerki og hefðbundna fæðugreiningu (fyrir mataræði). Út frá rannsókninni fást gögn um mælingar á sjósvölu allt árið um kring og GPS-mælingargögn sem sýna ferðalög og atferli við fæðuleit að sumri hjá íslenskum stofnun allra þriggja tegunda. Niðurstöður rannsóknarinnar hjálpa til við að skýra stöðu tegundanna, nýtast við framtíðarstjórnun þeirra og hjálpa til við að vernda nætursjófuglastofna Íslands, bæði hér á landi og við Atlantshafið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst