Fjallasýn Eyjamanna hefur tekið róttækum breytingum til norðurs. Þar sem áður var fagur Eyjafjallajökull, er nú aðeins sótsvart eldfjall og engu líkara en jökulinn sé horfinn. Aska liggur yfir öllum jöklinum en Óskar Pétur Friðriksson tók nokkrar myndir þegar létti til síðdegis í gær. Annars hafa Eyjamenn ekki haft mörg tækifæri undanfarna daga til að virða hina nýju fjallasýn fyrir sér því þoka hefur legið yfir Heimaey.