Fréttabikarinn var veittur á dögunum á lokahófi knattspyrnu ÍBV. Bikarinn hljóta þeir leikmenn meistaraflokks karla og kvenna sem þykja efnilegastir ár hvert. Í ár voru það þau Helena Hekla Hlynsdóttir og Viggó Valgeirsson sem hrepptu Fréttabikarinn. Við fengum að spyrja þau nokkurra spurninga.
Helena Hekla:
Byrjaði að æfa um 6 ára gömul
Fjölskylda: Mamma mín heitir Anna Lára Guðjónsdóttir og pabbi minn heitir Hlynur Ársælsson. Ég á líka þrjú systkini sem heita Sindri Þór, Svava og Elísa. Kærastinn minn heitir Nökkvi Már.
Hefur þú búið annarstaðar en í Eyjum: Já ég hef búið í Þýskalandi, Reykjavík, Hveragerði, Selfossi, Sandgerði og Tálknafirði svo eitthvað sé nefnt.
Mottó: ,,Þetta reddast.“
Síðasta hámhorfið: Það var Monsters.
Uppáhalds hlaðvarp? Ég hlusta sjaldan á hlaðvörp en þegar ég geri það þá er það Illverk.
Aðaláhugamál: Það er fótbolti, en fyrir utan það er það að baka og að taka því rólega.
Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Nei í rauninni ekki, bara þetta venjulega eins og að tannbursta sig, fara í sturtu og svo framvegis. Annars finnst mér gott að leggjast aðeins upp í sófa eftir vinnu og taka því rólega í svona 15-20 mínútur.
Hvað óttast þú mest: Ég óttast mest tannlækna.
Hvað er velgengni fyrir þér: Ég myndi segja að það væri árangur og þegar manni sjálfum líður vel ásamt liðinu sínu.
Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta? Ég byrjaði að æfa um 6 ára gömul þegar ég bjó úti í Þýskalandi. Ég æfði bara með strákum í 4 ár þegar ég bjó úti, en þegar ég flutti til landsins aftur þá fór ég að æfa með stelpum og var þá orðin 10 ára gömul.
Var eitthvað sem kom á óvart í sumar? Já það voru ,,kjúllarnir okkar“ eða stelpurnar í 2. og 3. flokki, þær eru allar mjög góðar og ég er spennt að fylgjast með þeim.
Hvað tekur nú við þegar fótboltatímabilinu í ár er lokið? Vinna, skóli, reyna að fara til útlanda og svo þegar ég er búin að jafna mig á hnéaðgerðinni sem ég var í, þá byrjar undirbúningstímabilið.
Eitthvað að lokum?
Ég er spennt fyrir næsta tímabili, mér líður ótrúlega vel hérna í Eyjum og miðað við hvað ég hef búið á mörgum stöðum þá líður mér langbest hér. Ég fékk einstaklega hlýjar móttökur og fannst ég strax vera mjög velkomin.
Viggó:
Fótbolti númer eitt, tvö og þrjú
Fjölskylda: Rósa Gunnarsdóttir er mamma mín, Valgeir Yngvi Árnason er pabbi minn og svo á ég litla systur sem heitir Mía Mekkín.
Hefur þú búið annarstaðar en í Eyjum: Nei, ég hef alltaf búið í Eyjum.
Mottó: ,,Stundum vinnurðu og stundum lærirðu“.
Síðasta hámhorfið: Ég var að klára Monsters á Netflix.
Uppáhalds hlaðvarp? Dr. Football.
Aðaláhugamál: Það er bara fótbolti númer eitt, tvö og þrjú.
Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Líklegast bara fótbolti.
Hvað óttast þú mest: Að ná ekki ensku áfanganum í skólanum.
Hvað er velgengni fyrir þér: Það er að leggja sig allan fram og að ná markmiðum sínum.
Hvenær byrjaðir þú að æfa fótbolta? Ég var um 5 ára gamall þegar ég byrjaði.
Var eitthvað sem kom á óvart í sumar? Nei þannig séð ekki.
Hvað tekur nú við þegar fótboltatímabilinu í ár er lokið? Ég tók viku pásu eftir tímabilið, gerði ekkert í viku, svo byrjaði ég í ræktinni og ég er byrjaður núna í fótbolta aftur og kominn í mína rútínu.
Eitthvað að lokum? Áfram Southampton.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst