Karlalið ÍBV vann frábæran 4-1 heimasigur á toppliði Vals þegar liðin mættust í 19. umferð Bestu deildar karla fyrr í dag. Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti en það var fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson sem kom Eyjamönnum yfir á 12. mínútu leiksins. Eyjamenn fengu þá hornspyrnu sem Vicente Valor tók og eftir mikinn darraðadans inn á teig Valsmanna náði Alex Freyr að koma boltanum í netið. Sex mínútum síðar átti Sverrir Páll Hjaltested algjört draumaskot fyrir utan teig Vals í stöngina og inn og aftur var það Vicente sem átti stórann þátt í marki Eyjamanna. Valsmenn voru í tvígang nálægt því að jafna en boltinn í þverslána í bæði skiptin. Staðan því 2-0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik héldu Eyjamenn áfram að sækja að marki Vals og eftir rúmar tuttugu mínútur kom þriðja markið. Aftur var það Vicente sem gerði frábærlega og kom boltanum fyrir markið þar sem varamaðurinn Elvis Bwomono var mættur til að stýra boltanum í netið. Tíu mínútum fyrir leikslok kom Hermann Þór Ragnarsson Eyjamönnum svo í 4-0 eftir frábæran undirbúning Oliver Heiðarssonar áður en Patrik Pedersson minnkaði muninn fyrir Valsmenn með sárabótamarki úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Frábær 4-1 sigur ÍBV staðreynd. Eftir leikinn eru Eyjamenn í 7. sæti með 24 stig en Valur situr á toppi deildarinnar með 37 stig en aðrir leikir umferðarinnar fara fram seinna í dag.
Næsti leikur Eyjamanna er mikilvægur útileikur gegn FH sunnudaginn 24. ágúst kl. 18:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst