Í dag var greint frá því að Hafrannsóknastofnun ráðleggi veiðar á 8589 tonnum af loðnu. 200 mílur, sjávarútvegsvefur mbl.is greinir frá því að einungis verði 4.683 tonna loðnukvóta ráðstafað til íslenskra skipa af þessum 8589 tonnum sem lögð voru til af Hafró, eða rúm 54%.
Vísar miðillinn til tilkynningar á vef Stjórnartíðinda. Þá segir að áður en til úthlutunar komi verða 248 tonn dregin frá og falla í hlut ríkisins sem byggða- og atvinnukvóti, en þessar veiðiheimildir verða líklega í boði fyrir íslensk skip á skiptamarkaði. Ætla má að þau 3.906 tonn sem útaf standa miðað við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar renni til erlendra skipa í samræmi við fiskveiðisamninga Íslands við Grænland, Færeyjar og Noreg.
Þá er haft eftir Sigurgeiri Brynjari Kristgeirssyni framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar á sama miðli að fulltrúar loðnuútgerða hafi fundað í dag og hefur verið til umræðu að efna til frekari loðnuleitar. Stutt er til stefnu því langt er gengið á vertíðartímabilið. „Loðnan er komin að Reykjanesi og eftir ekki marga daga er hún komin í hrogn. Við ætlum að funda aftur í fyrramálið,“ segir Binni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst