Bakvörðurinn Arnór Ingi Kristinsson er genginn í raðir ÍBV eftir að hafa yfirgefið Leikni Reykjavík í vikunni. Arnór hafði verið í Leikni frá árinu 2020 en áður var hann í Fylki í stuttan tíma og Stjörnunni, þar sem hann er uppalinn. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu ÍBV-íþróttafélags.
Þessi 23 ára leikmaður lék með Leikni í efstu deild tímabilin 2021 og 2022 en einnig nokkra leiki með Valsmönnum seinna árið. Samtals á hann 31 leik í efstu deild fyrir þau tvö lið en þá hefur hann leikið 55 leiki í Lengjudeildinni, alla með Leikni.
Arnór fetar því í fótspor föður síns, en faðir Arnórs, Kristinn Ingi Lárusson lék á sínum tíma með ÍBV, árið 1998 þegar hann varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu, þar sem hann lék lykilhlutverk.
Arnór er annar leikmaðurinn sem kemur til liðs við ÍBV eftir að Þorlákur Árnason tók við liðinu en fyrr í vikunni gekk Omar Sowe til liðs við félagið. Knattspyrnuráð hlakkar til samstarfsins við Arnór og býður hann velkominn til Vestmannaeyja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst