,,FH-ingar freista þess að ná fimm stiga forystu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þegar þeir sækja Eyjamenn heim í fyrsta leik 11. umferðar í dag á meðan ÍBV reynir að snúa genginu við eftir þrjá tapleiki í röð,” segir Víðir Sigurðsson í Morgunblaðinu í dag en liðin mætast á Hást4einsvelli klukkan 16.00 í dag.
Gengi liðanna hefur verið ólíkt síðustu umferðir því aðeins eitt stig skildi liðin að eftir sjö umferðir þegar FH var með 14 stig á toppnum og ÍBV stigi á eftir. Nú er FH með 21 stig en Eyjamenn sitja áfram með 13 og hafa sigið niður töfluna.
Víðir bendir á að FH-ingum hefur gengið ákaflega vel í Eyjum um árabil en þeir hafa aðeins einu sinni tapað í síðustu ellefu heimsóknum sínum á Hásteinsvöll í deildinni. ÍBV náði að sigra árið 2011, þá 3:1, en af hinum tíu leikjunum í Eyjum frá 2003 hefur FH unnið sjö og þrír hafa endað með jafntefli.
Félögin hafa samtals mæst 50 sinnum í efstu deild frá 1975. FH hefur unnið 23 leiki en ÍBV 15 og 12 hafa endað með jafntefli. Markatalan er 90:73, FH í hag.