Frá árinu 2018 hefur Fimleikafélagið Rán farið stækkandi, bæði þegar kemur að iðkendum og þjálfurum. Á árunum 2018-2021 fjölgaði iðkendum um 222 talsins. Mesta aukningin hefur verið í leikskólahópunum og hjá börnum í 1.-4. bekk. Árið 2018 voru aðalþjálfarar þrír, ásamt fjórum aðstoðarþjálfurum. Árið 2021 voru 15 aðalþjálfarar, 14 aðstoðarþjálfarar og einn yfirþjálfari. Í ár eru iðkendur félagsins um 260 talsins.
Yfirþjálfari félagsins í dag er Nanna Berglind Davíðsdóttir, ásamt flottum hópi aðal- og aðstoðarþjálfara. Blaðamaður Eyjafrétta spjallaði við þær Nönnu Berglindi og Sigurbjörgu Jónu sem báðar þjálfa stóran hóp iðkenda í dag.
Markmið að stækka og betrumbæta félagið
Síðasta vetur voru iðkendur félagsins 294 og farið var á fjölmörg mót, ásamt því að Rán hélt Vestmannaeyjamót í hópfimleikum hér heima þar sem í eitt skiptið komust þau ekki upp á land með hópa því Herjólfur silgdi ekki vegna veðurs.
Markmiðið er að stækka og betrumbæta félagið, „Við erum alltaf að reyna að gera betur og afla okkur meiri þekkingar með þjálfaranámskeiðum. Í haust stefna þau á haustmót með fjóra hópa og er undirbúningur í fullum gangi.“
Á hverju ári heldur félagið vor- og jólasýningu. Á henni sýna iðkendur í 1-10. bekk en börn fjögurra og fimm ára eru með foreldraæfingar þar sem þau sýna aðstandendum það sem þau hafa verið að gera og læra á önninni. „Vorsýningin okkar í ár gekk mjög vel en við vorum í samvinnu við leikfélagið og vorum með ávaxtakörfu þema. Við stefnum að því að halda áfram þessari samvinnu og erum að plana eitthvað skemmtilegt fyrir jólasýninguna okkar.“
Ávaxtakarfan var þema vorsýningarinnar í ár í samstarfi við Leikfélag Vestmannaeyja.
Stefna á hæfileikamótun
Hæfileikamótun er fyrir þá iðkendur sem uppfylla lágmarkskröfur inn á hæfileikamótunaræfingar en hafa ekki enn náð þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru inn á úrvalshópa æfingar. Markmiðið með þessum æfingum er að skapa iðkendum vettvang til að æfa saman, kynnast og læra hvert af öðru. Félagið hefur áður farið með iðkendur á slíkar æfingar og segja Nanna og Sigubjörg að stefnan sé að fara á næstu æfingu sem er í október eða nóvember. „Við höfum því miður ekki aðstöðuna til þess að æfa þessi stóru stökk sem þarf til að komast inn á úrvalshópaæfingu. Púðagryfja myndi gera helling þar sem hægt væri að æfa erfiðari stökk.”
Keppnishópar í stökkfimi yngri og eldri. Efri lína: Elísabet, Erna Karen , Vigdís Linda, Lilja Huld, Embla Rún, Helga Dís og Viktoría Ninja. Neðri lína: Thelma Sól, Védís Eva, Rakel Rut, Lovísa Ingibjörg, Tinna Mjöll, Jenna og Júlí Bjart.
Aðgengi að áhöldum opið öllum
Aðgengi að áhöldum félagsins er opið fyrir alla sem koma inn í salinn og því mikið gengið í áhöldin og oft illa farið með þau. Segja þær mikið um slæma umgengni í salnum vegna þess að hann er aldrei læstur og hægt að komast í hann hvenær sem er á opnunartíma íþróttahússins og erfitt sé fyrir starfsfólk að vera með sífellt eftirlit þar. „Dýnur sem kosta mörg hundruð þúsund eru oft í keng og erum við í stöðugri baráttu við að halda salnum snyrtilegum þar sem nánast á hverjum degi þegar við mætum er allt dótið okkar út um allt.“
Nýtt húsnæði draumur
Nanna og Sigurbjörg segja að nýtt húsnæði fyrir fimleikana væri draumur. „Aðstaðan sem við erum í núna er ekki nógu góð. Við erum oft með marga hópa í einu í salnum og þurfum því mikið að tví- og þrískipta salnum. Þessi staða takmarkar æfingaval þjálfara. Öðru megin í salnum eru rimlar en ekki í hinum hlutanum. Fimleikaþjálfun þarfnast rimla og veggja, ásamt annarra áhalda og vont að hafa ekki aðgengi báðum megin í salnum. Húsnæðið lekur og oft er kalt og þurrt loft í salnum, sem er ekki gott fyrir fimleikafólkið okkar og skapar meiri hættu á meiðslum“. Segjast þær þó vera þakklátar að hafa hálfan sal sem alltaf er uppsettur þar sem mikill tími fer í það að taka út og ganga frá áhöldum.
„Við hvetjum alla til að koma í fimleika þar sem að fimleikar er góður grunnur fyrir lífið. Ekkert mál að koma og prófa“, segja þær að lokum.
Greinina má einnig lesa í 20. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst